Erlent

Beats heyrnartól bönnuð á HM

Randver Kári Randversson skrifar
Úrúgvæski framherjinn Edison Cavani mundar setur á sig heyrnartól á blaðamannafundi fyrir leik Úrugvæ og Englands á HM í gær.
Úrúgvæski framherjinn Edison Cavani mundar setur á sig heyrnartól á blaðamannafundi fyrir leik Úrugvæ og Englands á HM í gær. Vísir/AFP
Beats heyrnartólin eru í miklu uppáhaldi hjá mörgum af frægum knattspyrnumönnum heims á borð við Wayne Rooney, Luis Suarez og Neymar. Þeir mega þó ekki nota þau á opinberum viðburðum heimsmeistaramótsins í knattspyrnu vegna styrktarsamnings keppinautarins Sony við FIFA. Frá þessu er greint á vef Reuters.

Vegna vinsælda heyrnartólanna meðal knattspyrnumanna mátti gera ráð fyrir því að HM í knattspyrnu myndi virka sem risastór auglýsing fyrir Beats. Neymar hafði Beats heyrnartól um hálsinn þegar hann steig út úr liðsrútunni á leið á síðustu æfingu brasilíska landsliðsins fyrir mótið. Einnig sást Luis Suarez með heyrnartólin á æfingum fyrir mótið.

Svo vill þó til að einn helsti keppinautur Beats, raftækjaframleiðandinn Sony, er opinber styrktaraðili FIFA, og kærir sig lítið um vinsældir Beats meðal skærustu stjarna knattpsyrnuheimsins. Vegna samnings milli FIFA og Sony mega þátttakendur á HM ekki sjást með Beats heyrnartól á leikvöngum keppninnar eða við opinbera fjölmiðlaviðburði.

Beats virðist þó hafa yfirhöndina í þessari keppni um hylli knattspyrnumanna en heyrnartól sem Sony dreifði til keppenda á HM fyrir keppnina hafa ekki notið sömu vinsælda og Beats, og hafa fáir keppendur hingað til sést með þau.

Markaðsfræðingar telja að þetta útspil Sony geti gagnast Beats geti enn frekar, en það virki ekki síður sem auglýsing ef knattspyrnustjörnur kjósa meðvitað að nota Beats heyrnartól frekar en Sony í sínum hvíldartíma meðan á HM stendur.

Beats er þekkt fyrir að fara óhefðbundnar leiðir í markaðssetningu og nokkrum dögum áður en HM hófst sendi fyrirtækið frá sér 5 mínútna langt myndband þar sem knattspyrnumenn á borð við Neymar, Suarez, Mario Goetze, Robin van Persie og Javier Hernandez koma fram með heyrnartólin vinsælu. Myndbandið heitir The Game Before The GAme og hafa yfir 10 milljónir manns nú séð myndbandið á Youtube.

Beats var upphaflega sett á laggirnar af bandaríska rapparanum Dr. Dre en tölvurisinn Apple keypti fyrirtækið í síðasta mánuði fyrir um 3 milljarða dollara. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×