Erlent

Ebólufaraldurinn sá banvænasti í sögunni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VISIR/AFP
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir að grípa þurfi til róttækra aðgerða til að stemma stigu við útbreiðslu ebóluvírussins í Afríku sem hún segir þann banvænasta í sögunni.

Rúmlega 400 manns hafa látist í Vestur-Afríku vegna veirunnar á þessu ári en hennar varð fyrst var í Gíneu í mars. Hefur hún síðan þá náð að breiðast út til nærliggjandi landa, Líberíu og Sierra Leone og er allra leiða leitað til að hefta útbreiðslu hennar.

Til að mynda hefur verið lokað fyrir öll viðskipti til Sierra Leone frá Gíneu og Líberíu, skólum hefur verið lokað og öllum helstu almenningsstöðum.

Á mánudag var búið að greina frá 635 tilfellum ebólu og hafa því rúmlega 60 prósent þeirra sem greindir hafa verið með veiruna á síðustu vikum og mánuðum látið lífið.  Sökum útbreiðslu hennar og hás dánarhlutfalls hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin sagt þessa útbreiðslu Ebólu þá skaðlegustu í sögunn og hefur stofnunin boðað til fundar ellefu ríkja til að leita lausna á þeim vanda sem steðjar að ríkjum Vestur-Afríku. Fundurinn mun fara fram í Accra í Ghana 2. og 3. júlí næstkomandi.

Stofnunin sendi 150 sérfræðinga á sviði faraldsfræði til svæðanna í upphafi þessa árs en allt hefur komið fyrir ekki,  ebólutilfellum hefur fjölgað mikið á síðustu vikum.

Engin lækning er til við ebóluveirunni, en hún dregur nafn sitt af fljóti í Austur-Kongó þar sem veiran kom fyrst upp árið 1976. Þá dró hún 280 manns til dauða en alls hafa 1600 manns fallið af hennar völdum frá miðjum áttunda áratug síðustu aldar.   Í kjölfar smits herjar veiran á nær öll líffæri manneskjunnar og étur upp vefi líkamans.  


Tengdar fréttir

Ebóla breiðist enn út

Um 330 manns hafa látist í Vestur-Afríku á þessu ári af völdum e-bólu veiru. Sjúkdómurinn er sagður sá allra versti og skæðasti í sögunni.

Ebóla breiðist hratt út með jarðarförum

Gunnhildur Árnadóttir, starfsmaður Lækna án landamæra, starfaði á vettvangi ebóluveiru í Gíneu. Ástandið á svæðinu er afar slæmt og erfitt að ná tökum á því. Siðir við útfarir eru taldir mesti útbreiðsluvaldur




Fleiri fréttir

Sjá meira


×