Innlent

Ringulreið í Sao Paulo vegna verkfalla og mótmæla

Randver Kári Randversson skrifar
Starfsmenn neðanjarðarlesta mótmæla í Sao Paulo.
Starfsmenn neðanjarðarlesta mótmæla í Sao Paulo. Vísir/AP
Mikil truflun varð á samgöngum í fjölmennustu borg Brasilíu í gær þegar starfsmenn neðanjarðarlesta borgarinnar fóru í verkfall og mótmæltu á götum úti. Guardian greinir frá þessu.

Þetta var fimmti dagur verkfallsaðgerðanna, sem hófust í síðustu viku og ollu mestu umferðarhnútum í borginni það sem af er þessu ári. Í gær þurfti lögregla að beita táragasi til að leysa upp mótmæli starfsmannanna sem mótmæltu á götum Sao Paulo. Ákveðið var að fresta verkfallinu um tvo daga í gærkvöldi, en það gæti hafist aftur á fimmtudag, á fyrsta degi heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu. 

Mikil óánægja hefur verið í Brasilíu undanfarið vegna þess mikla kostnaðar sem hlýst af því að halda heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu sem hefst nú í vikunni. Andstæðingar keppninnar hafa hafið herferðir á samfélagsmiðlum, verkalýðsfélög hafa boðað til verkfallsaðgerða og skipulögð mótmæli hafa verið í öllum 12 borgunum þar sem keppnin mun fara fram.

Því er haldið fram að um ranga forgangsröðun sé að ræða hjá yfirvöldum og að mikil spilling sé í kringum keppnina. Talið er að kostnaður brasilískra yfirvalda vegna heimsmeistarakeppninnar nemi um 11 milljörðum dollara. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×