Innlent

Fimm piltar um tvítugt handteknir

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/anton
Nóg var um að vera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt, og eru allar fangageymslur nú fullar. Fimm piltar um tvítugt voru handteknir í húsi skammt frá miðborg Reykjavíkur með töluvert magn af fíkniefnum í fórum sínum. Mennirnir verða yfirheyrðir í dag.

Þá var kona á sjötugsaldri einnig handtekin, en hún hafði ekið á steinstólpa við Flugvallaveg, ekið af vettvangi og lagt bifreiðinni nokkuð laskaðri í stæði. Konan var skammt frá þegar lögreglu bar að garði og voru það vegfarendur sem vísuðu á hana. Var hún færð á lögreglustöðina þar sem blóðsýni var tekið.

Þó nokkrir voru teknir fyrir ölvunarakstur, og var það meðal annars karlmaður á þrítugsaldri sem stöðvaður var á Vesturlandsvegi. Maðurinn ók á 124 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 80 kílómetrar. Bifreið hans var tekin úr umferð því hún var ótryggð.

Tilkynning barst lögreglu um bifreið á miðjum Bústaðavegi. Kona á fertugsaldri hafði fipast aksturinn og ekið á vegg. Bíllinn var óökufær og var kranabifreið fengin til að fjarlægja bílinn. Konan var ölvuð.

Á Réttarholtsvegi var karlmaður sviptur ökuréttindum vegna ölvunaraksturs og á Suðurlandsvegi var 17 ára piltur tekinn úr umferð eftir að hafa ekið ölvaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×