Innlent

Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar samþykkir nýjan kjarasamning

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/vilhelm
Félagsmenn Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar hafa samþykkt nýjan kjarasamning við Reykjavíkurborg.

Samningurinn felur í sér 2,8 prósenta hækkun, eða að lágmarki átta þúsund krónur fyrir dagvinnu miðað við fullt starf.

Eingreiðsla að upphæð 14.600 kr. greiðist við upphaf samnings miðað við að starfsmaður sé í fullu starfi en annars hlutfallslega. Hinn 1. febrúar  verður eingreiðsla upp á tuttugu þúsund krónur miðað við fullt starf. Desemberuppbót verður á samningstímanum 79.500 krónur og orlofsuppbót verður 39.500 krónur. Þá verða breytingar gerðar á greinum er varða vaktavinnu.

Samningurinn gildir frá 1. febrúar 2015 til 30. apríl 2015.

Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar um nýjan samning lauk í dag og féllu atkvæði á þann veg að 58,42 prósent samþykktu hinn nýja samning en 39,69 prósent sögðu nei. Auðir og ógildir voru 1,88%. Alls greiddu 849 manns atkvæði sem gerir 25,7 prósent kosningaþátttöku.

Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar er stærsta einstaka bæjarstarfsmannafélagið innan BSRB. Félagsmenn höfnuðu nýjum kjarasamningi við Reykjavíkurborg og var því aftur sest að samningaborðinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×