Innlent

„Vantar pólitískt þor og ábyrgð til að takast á við vandann“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Þórður Hjaltested er formaður Kennarasambands Íslands.
Þórður Hjaltested er formaður Kennarasambands Íslands.
Sjötta þing Kennarasambands Íslands hófst á Grand Hótel í dag og var það Þórður Hjaltested, formaður KÍ, sem setti þingið.

Þórður sagði í setningarræðu sinni að það væri dapurlegt að standa í þeim sporum að setja þing KÍ á sama tíma og 1.800 félagsmenn væru í verkfalli en frá þessu greint á síðu Kennarasambands Íslands.

„Þetta er langt í frá í fyrsta sinn sem kennarar eru neyddir til að sækja kjarabætur með afli, því af einhverjum furðulegum ástæðum þykir stjórnmálamönnum það sjálfsagt að kennarar hafi lág laun,“ sagði Þórður og vildi hann meina að sjálfsagðar kröfur hefðu verið hundsaðar, kröfur sem snúast um að störf kennara séu metin til jafns við aðra sem sinna sambærilegum störfum.

„Allir stjórnmálamenn sem ég hef hitt vilja góða menntun fyrir börn og ungmenni. Flestir telja þeir íslenskt skólakerfi gott. Flestir eru á því að laun kennara séu of lág og þau þurfi að leiðrétta. Eftir hverju eru menn að bíða. Er beðið eftir því að skólakerfið riði til falls eða gæðin dali, nei ég trúi því ekki. Hér tel ég að það vanti pólitískt þor og ábyrgð til að takast á við vandann.“

Þórður sagði að auka þyrfti fjármagns til skólatarfs og það strax. Hann talaði um að íslenskt samfélag eigi góða skóla, góða kennara og gott menntakerfi.

„Við viljum bæta það, niðurskurður til málaflokksins gengur ekki lengur, auka verður fjármagn til skólastarfs strax og hækka laun fagfólksins sem þar vinnur. Það þolir enga bið. Framtíðasýn fyrir kennsluhætti 21. aldarinnar er m.a. að auka verulega notkun samfélagsmiðla, að kennslugögn séu búin til og sett fram á rafrænan hátt. Gera þarf skólum kleift að taka þátt í þessari þróun og tækjavæða þarf skóla til að þetta sé mögulegt, en síðast en ekki síst þá þarf að gefa kennurum kost á því að sinna sinni starfsþróun vel þannig að þeir séu í stakk búnir til að nýta sér tæknina.“

Yfirskrift þingsins í ár er Samstaða um menntun – forsenda framfara. Yfirskriftin felur í sér að sögn Þórðar ákall félaga í KÍ um nauðsyn þess að lagfæra laun kennara og stjórnenda sérstaklega umfram aðra í samfélaginu.

„Færð hafa verið fram rök fyrir því hvers vegna þetta sé nauðsynlegt. Fyrst ber að nefna lengingu kennaramenntunar, nú er krafa um 5 ára háskólanám, meistaragráðu, til þess að fá leyfisbréf til kennslu. Í öðru lagi má nefna aðvaranir OECD en laun kennara á Íslandi mælast með þeim lægstu innan landa OECD og er bent á að þetta sé veruleg hindrun fyrir því að ungt fólk velji kennarastarfið sem ævistarf. Í þriðja lagi er kennarastéttin í meirihluta konur, 80% félagsmanna KÍ eru konur og bent er á að leiðrétta þurfi laun fjölmennra kvennastétt sérstaklega.“

Formaðurinn sagði stjórnvöld þurfa að forgangsraða í þágu menntunar og hætta að láta peningaöflin og fjármálakerfið hrifsa til sín of stóran hluta þjóðarkökunnar.

„Nú er tími til kominn að stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, leiðrétti laun kennara og geri þau samkeppnishæf við viðmiðunarstéttir þar sem gerð er krafa um 5 ára háskólamenntun, mikið sjálfstæði og frumkvæði í starfi. Stjórnvöld, ábyrgðin er ykkar. Hvernig samfélag viljið þið – hvernig skólasamfélag viljið þið? Ég vil samfélag réttlætis og jafnréttis, þar sem gæða menntun er í boði fyrir börn og ungmenni þessa lands og þar sem þjóðarauð er skipt réttlátlega milli þegnanna,“ sagði Þórður Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands, í ræðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×