Innlent

Byrjað á núlli í einu fátækasta héraði Malaví

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ómar Valdimarsson, sendifulltrúi og verkefnisstjóri Rauða krossins.
Ómar Valdimarsson, sendifulltrúi og verkefnisstjóri Rauða krossins. mynd/aðsend
Ómar Valdimarsson, sendifulltrúi og verkefnisstjóri Rauða krossins, heldur fyrirlestur um störf sín í Masanje í Mangochi héraði í Malaví, fimmtudaginn 3. apríl kl. 08:30 í húsi Rauða krossins að Efstaleiti 9 í Reykjavík.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Rauða krossinum en fyrirlesturinn er öllum opinn.

Ómar starfaði að því á síðasta ári að setja upp heilsueflingarverkefni Rauða krossins með þátttöku íbúa Masanje sem áður höfðu greint brýnustu þarfir fólks í samfélaginu.  

Markmið verkefnisins er að bæta til frambúðar heilbrigðisástand 9.000 fjölskyldna (70% íbúanna) fyrir árslok 2015 með því að tryggja þeim aðgang að hreinu vatni, betri aðgangi að heilsugæslu og margháttaðri fræðslu um heilbrigði og hreinlæti.

Verkefnið er unnið í samvinnu við Rauða krossinn í Malaví, og Þróunarsamvinnustofnun Íslands sem hefur lengi starfað að uppbyggingu í Mangochi héraði.

Erindi Ómars kallast Byrjað á núlli, þar sem hann vísar til aðstæðna á verkefnissvæðinu þegar Rauði krossinn hófst handa. Í Masanje búa um 50 þúsund manns. Það er meðal fátækustu svæða í Malaví, sem er eitt fátækasta land heims.

Þar vantar nánast alla þjónustu. Aðeins einni heilsugæslustöð, sem er í lélegu ástandi, illa mönnuð og yfirleitt lyfjalaus, er ætlað að sinna alvarlegri heilbrigðisvandamálum. Ekki eru vegir á verkefnissvæðinu, ekki verslun og ekkert rafmagn.

Íbúar hafa mjög takmarkaðan aðgang að hreinu vatni, en Rauði krossinn hefur nú þegar borað sjö borholur á verkefnasvæðinu sem hafa gjörbreytt aðstæðum.

Matarskortur er viðvarandi, fjöldi munaðarlausra barna fer vaxandi vegna alnæmis, og fáfræði veldur vaxandi tíðni lífshættulegra sjúkdóma sem hægt væri að komast hjá, svo sem alnæmi, malaríu, og niðurgangspestum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×