Innlent

„Getum ekki látið bjóða okkur allt“

„Það eru alltof mikið af plastumbúðum í íslenskum verslunum“, þetta segir stofnandi Facebook-síðu sem ætlað er að vekja framleiðendur og söluaðila til umhugsunar um þær óþarfa umbúðir sem neytendum er boðið uppá.

Hátt í sjö þúsund manns hafa látið sér líka við Facebook-síðuna „Bylting gegn umbúðum“ sem bæjarfulltrúinn og varaþingmaðurinn Margrét Gauja Magnúsdóttir stofnaði fyrir tíu dögum, eftir að henni ofbauð umbúðir utan um ostaslaufu. Hún segir viðbrögðin hafa farið vonum framar.

„Þetta var greinilega þörf umræða. Við megum ekki gleyma í þessu samhengi að við erum að kaupa vörur sem eru okkur nauðsynlegar og þeim er pakkað inn í alltof mikið af plasti. Umbúðirnar enda svo í ruslatunnunni hjá okkur og það tekur náttúruna fleiri hundruð ár að eyða þeim. Við verðum að vera meðvitaðir neytendur og við eigum ekki að láta bjóða okkur allt," segir Margrét.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×