Innlent

Verkfallskrakkar fá störf hjá gámafélagi

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Hressir krakkar vinna í verkfallinu.
Hressir krakkar vinna í verkfallinu. Mynd/Dofri Hermannson
Íslenska gámafélagið hefur boðið öllum börnum starfsmanna fyrirtækisins sem orðið hafa fyrir barðinu á verkfalli framhaldsskólakennara að fá vinnu.

Krakkarnir starfa ýmist við að flokka, aðstoða með rafmagn eða snyrta til á starfssvæði gámafélagsins á Gufunesi. Þrettán krakkar hafa þáð boðið og nýta þeir verkfallið í að vinna.

Verkfallið hefur staðið í næstum þrjár vikur núna, og hefur áhrif á um það bil 28 þúsund menntaskólanema um land allt. Nemendur Verzlunarskóla Íslands sleppa þó við verkfallið enn sem komið er, en þeir mæta enn í skólann.

Jón Þórir Frantzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins, segir að margir starfsmanna fyrirtækisins hafi fundið fyrir því að vegna verkfallsins hafi heimilislífi verið raskað. Börn starfsmanna séu sum hver búin að snúa sólarhringnum við, sofi á daginn en vaki á nóttunni, og hangi í tölvunni eða glápi á sjónvarpið í óhófi. Því sé mikið hentugra fyrir alla að fá þau til að mæta í vinnu og skapa verðmæti í stað þess að slæpast og aðhafast lítið sem ekkert.

„Unglingarnir komast í ákveðinn vandræðagang í þessu verkfalli, leggjast í tölvurnar og sjónvarpsgláp. Við sáum mikið gagn að því að fá þau til að koma og flokka og koma sér í verðmæti í staðinn fyrir sjónvarpsgláp. Þau eru svo fljót að snúa við sólarhringnum þessir krakkar,“ segir Jón. „Þetta er bara tilraun til að halda reglu á heimilunum, það skiptir öllu máli fyrir fyrirtækið.“

Aðspurður segist Jón eiga 16 ára son sem lendi í verkfallinu. „Ég þurfti endilega að koma honum í vinnu. Ég hef samkennd með öllu fólki sem lendir í þessu,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×