Innlent

Óvissan er háskólanemum erfið

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Ekki liggur fyrir hvenær lokapróf í Háskóla Íslands verða ef af verkfalli háskólakennara verður. „Það eina sem er víst er að þau verða,“ segir María Rut Kristinsdóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

„Miðað við það sem ég hef heyrt mun allt ferlið frestast um að minnsta kosti þrjár vikur,“ segir María.

Stjórn félags háskólakennara hefur boðað til verkfalls en þetta staðfesti Jörundur Guðmundsson, formaður félags háskólakennara, í samtali við fréttastofu fyrir stuttu.

Takist ekki að semja við ríkið mun verkfallið fara fram á tímabilinu 25. apríl til 10. maí á lögbundnum próftíma.

Óvissan um hvenær prófin verða er verst að sögn Maríu Rutar. „Þess vegna leggjum við kapp á að það verði samið strax og verkfallinu afstýrt. Þannig má eyða þessari óvissu.“

„Það virðist hafa farið af stað sú saga að prófin verði haldin ágúst,“ segir María Rut. Skólayfirvöld hafi þó lýst því yfir að próf verði haldin svo fljótt og auðið er. „Ég get ekki túlkað það á annan hátt en að prófin verði haldin í maí eða júní.“

Ef prófunum seinkar hafi það áhrif á greiðslur frá Lín. Lánin séu greidd út í eingreiðslu um mánaðarmótin maí, júní. Þorri háskólanema eru að sögn Maríu Rutar á fyrirframgreiddum lánum. Það þýðir að bankinn lánar nemendum vissa upphæð mánaðarlega sem þeir svo greiða í lok annar þegar þeir hafa staðist próf.

„Það koma þarna mánaðarmót sem námsmenn munu ekki fá pening til þess að greiða reikninga,“ segir María Rut.

Frestist prófin þýðir það líka að námsmenn geta ekki hafið störf jafn snemma og venja er. Flestir námsmenn eru byrjaðir að  vinna í lok maí og byrjun júní. „Þannig missa þeir líka af launum sem þeir hefðu annars fengið.“

Annar vinkinn á það mál er hvað þetta komi atvinnurekendum illa. „Ég talaði við vinnuveitanda um daginn sem hafði ráðið til sín 100 nemendur í afleysingar í sumar,“ segir María Rut. Þar séu þá jafnvel starfsmenn sem hafi skipulagt sumarfrí út frá afleysingaráðningum og verkfallið hafi því líka áhrif á það fólk.

„Aðallega er þetta alls herjar tekjutap fyrir námsmenn og gríðarleg óvissa. En þetta setur líka atvinnulífið úr skorðum þar sem það stólar á stúdenta í sumarstörf,“ segir María Rut. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×