Innlent

Sjálfstæðistríó gegn skuldaniðurfellingu

Ingvar Haraldsson skrifar
Vilhjálmur Bjarnason, Pétur Blöndal og Brynjar Níelsson.
Vilhjálmur Bjarnason, Pétur Blöndal og Brynjar Níelsson.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þeir Pétur Blöndal, Vilhjálmur Bjarnason og Brynjar Níelsson hafa allir talað opinberlega gegn skuldaniðurfellingarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Vilhjálmur Bjarnason sagði í ræðu á Alþingi á mánudaginn að frumvarpið væri ósanngjarnt gagnvart þeim sem hefðu tekið annarskonar lán en verðtryggð húsnæðislán.

„Í þessari aðgerð sem er hér til umræðu eru undanskilin námslán, það er afmarkað tiltekið tímabil, það er ekki tekið tillit til lögmætra gengistryggðra lána, það er ekki tekið tillit til óverðtryggðra lána og ekki heldur tekið tillit til þar sem um er að ræða leiguhúsnæði.“

Pétur Blöndal segir að orðið forsendubrestur eigi alls ekki við um þann hóp sem frumvarpið nær til.

„Menn hafi fundið upp nýtt orð, forsendubrestur. Þetta orð forsendubrestur á við um einhvern allt annan hóp. Þetta á miklu frekar við um þá sem misstu vinnuna og þá sem lentu í vanda þegar framfærslan jókst. Ég held að einhverjum snjöllum skuldara hafi dottið þetta orð í hug. Ég get ekki séð að þetta sé skynsemi með neinum einasta hætti og ég mun segja nei við þessu frumvarpi.“

Brynjar Níelsson gagnrýndi frumvarpið á Facebook síðu sinni í gær.

„Ég hef aldrei farið í launkofa með litla hrifningu mína af skuldaniðurfellingaleið á verðtryggðum skuldum. Ég hef hins vegar lýst yfir stuðningi mínum að fara þessa blönduðu leið stjórnarflokkanna sem efnahagsaðgerð til að efla millistéttina í landinu sem fór verst út úr hruninu. Hún verður aldrei fullkomlega réttlát frekar en aðrar aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum. Hún er hins vegar í samræmi við kosningaloforð stjórnarflokkanna og því lýðræðisleg.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×