Innlent

Jákvæð áhrif stuttmyndarinnar Fáðu já

Stefán Árni Pálsson skrifar
Úr myndinni Fáðu já.
Úr myndinni Fáðu já.
Nær allir unglingar í 10. bekk hafa séð myndina Fáðu já, eða um 95% en þetta kemur fram í könnun sem Vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi lét gera í samvinnu við SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni.

Auk þess voru könnuð áhrif myndarinnar og viðhorf unglinganna til hennar.

Nemendur í 10. bekk allra grunnskóla á landinu og allir framhaldsskólanemar fengu sýningu á stuttmyndinni Fáðu já í janúar 2013.

Myndinni er ætlað að skýra mörkin á milli kynlífs og ofbeldis, vega upp á móti áhrifum klámvæðingar, brjóta ranghugmyndir á bak aftur og innræta sjálfsvirðingu í nánum samskiptum.

Niðurstöður könnunarinnar sýndu að tveir af hverjum þremur strákum og stelpum (66,0%) finnst þau skilja betur en áður hver munurinn er á kynlífi í raunveruleikanum og kynlífi sem sýnt er í kvikmyndum eða klámi eftir að hafa horft á myndina Fáðu já.

Meirihluti stráka og stelpna (70,4%) finnst þau skilja betur en áður hvað það þýðir að fá samþykki fyrir kynlífi eftir að þau höfðu horft á myndina Fáðu já.

Það vakti sérstaka ánægju að tæplega helmingur unglinga (44,1%) telja það vera auðveldara að tala um kynlíf við þann sem þá langar að stunda kynlíf með en áður en þau sáu myndina Fáðu já, eða 58% stráka og 34% stelpna.

En eitt af markmiðum myndarinnar var að hvetja ungt fólk til að eiga samskipti um kynlíf og fá já áður en kynlíf er stundað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×