Innlent

Viðamikið mat gert á skóla án aðgreiningar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Illugi Gunnarsson.
Illugi Gunnarsson. vísir/stefán
Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að verið sé að gera viðamikið mat á stefnunni um skóla án aðgreiningar. Niðurstöðu sé þó ekki að vænta fyrr en árið 2015.

Skólastefnan byggir á hugmyndum og samþykktum um jafnrétti og þátttöku allra í samfélaginu, burtséð frá hömlun hvers og eins.

Námið á að vera sveigjanlegt, kennsluhættir fjölbreyttir og sérstakur stuðningur við hvern. Þannig eiga fatlaðir rétt á að ganga í almennan skóla í sínu heimahverfi frekar en að vera í sérhópi.

Stefnan hefur verið töluvert gagnrýnd en samkvæmt rannsókn sem gerð var árið 2012 kom í ljós að fjórðungur íslenskra grunnskólakennara hefur ekki trú á hugmyndafræði skóla án aðgreiningar, en aðeins 42 prósent eru jákvæð gagnvart henni. Þá telja 77 prósent kennara að álag í kennslu hafi aukist mjög mikið á undanförnum fimm árum.

Þingmenn sem tóku til máls voru alla jafna sammála því að réttur foreldra þurfi að vera ríkari, skóli án aðgreiningar henti ekki öllum og nauðsynlegt sé að dæma hvert tilfelli fyrir sig í samráði við foreldra.

„En það þarf að taka með í reikninginn afstöðu sérfræðinga og skólamanna. Það liggur þó beinast við að mesti þunginn liggur á foreldrunum,“ sagði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×