Innlent

Ýtt á eftir skuldafrumvörpum ríkisstjórnarinnar

Heimir Már Pétursson skrifar
Helgi Hjörvar ýtti spurði forsætisráðherra hvar frumvörp um skuldaniðurfærslu heimilanna, lyklafrumvarp og um afnám verðtryggingar væru á Alþingi í dag.
Helgi Hjörvar ýtti spurði forsætisráðherra hvar frumvörp um skuldaniðurfærslu heimilanna, lyklafrumvarp og um afnám verðtryggingar væru á Alþingi í dag. vísir/daníel
Gengið var á eftir því við forsætisráðherra á Alþingi í morgun hvað liði framleggingu frumvarpa um afnám verðtryggingar, skuldamál heimilanna og lyklafrumvarp. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir menn hafa áhyggjur af því að verðbólga éti upp leiðréttingar verðtryggðra lána án afnáms verðtryggingar.

Frumvörp um stærstu kosningamál Framsóknarflokksins eru í undirbúningi í stjórnarráðinu en hafa enn ekki litið dagsins ljós á Alþingi. Frestur til að leggja fram frumvörp á vorþingi rennur út um mánaðamótin án þess að beita þurfi afbrigðum.

Helgi Hjörvar þingflokksformaður Samfylkingarinnar vakti athygli á þessu á Alþingi í morgun.

„Hæst virtur forsætisráðherra, hvar er frumvarp um afnám verðtryggingarinnar? Hvar er lyklafrumvarpið,“ spurði þingmaðurinn og bætti við að margir teldu boðað frumvarp um skuldaleiðréttingu verðtryggðra lána heimilanna verða gagnslaust án afnáms verðtryggingarinnar.

„Að 4 % verðbólga muni éta upp alla 72 milljarða skuldaleiðréttingu,“ bætti Helgi við.

Þingmenn Framsóknarflokksins hefðu lagt áherslu á afnám verðtrygingar til framtíðar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði nægan tíma eftir af tíma vorþings til að afgreiða ýmis mikilvæg mál.

„Þess vegna er ánægjulegt, að ég gat ekki skilið háttvirtan þingmann öðruvísu en að hann væri að taka undir ákall um afnám verðtryggingar. Þá hefur bæst við óvæntur liðsmaður í þeirri baráttu,“ sagði forsætisráðherra.

Hann vildi hins vegar róa Helga með áhyggjur hans af því að verðbólga muni í millitíðinni éta upp 72 milljarða leiðréttingu verðtryggðra lána.

„Það gerist ekki vegna þess að á meðan verðtryggingin er til staðar, og breytir engu um áform um afnám hennar, en á meðan hún er til staðar er leiðréttingar hlutinn verðtryggður líka,“ sagði Sigmundur Davíð.

„Spurt var, hvað líður frumvörpum um tvö lykilloforð ríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokksins. Afnám verðtryggingar anars vegar og lyklafrumvarpið hins vegar. Hæstvirtur forsætisráðherra átti engin svör,“ sagði Helgi Hjörvar.

„Virðulegur forseti, ég var farinn að halda eftir fyrri fyrirspurn háttvirts þingmanns að honum tækist í fyrsta skipti í mínu minni að komast í gegnum heilan fyrirspurnartíma eða fyrirspurn án þess að fara út í verulegan skæting. En að sjálfsögðu gekk það ekki eftir,“ sagði forsætisráðherra. Vinna standi yfir varðandi útfærslu á afnámi verðtryggingar sem byggi á niðurstöðum sérfræðihóps þar að lútandi eins og þingmanninum væri kunnugt um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×