Innlent

Elín Hirst gerði athugasemdir við ummæli forseta Íslands

Stefán Árni Pálsson skrifar
Elín sagðist ekki fá betur séð en að ummæli Norðmannsins væru í samræmi við stefnu norskra stjórnvalda.
Elín sagðist ekki fá betur séð en að ummæli Norðmannsins væru í samræmi við stefnu norskra stjórnvalda. mynd/valli

Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði í umræðunni  um skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál á Alþingi í dag að hún gerði athugasemdir við ummæli forseta Íslands við norska aðstoðarráðherrann.

„Ég var ánægð með það að heyra hversu skýr afstaða utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar er varðandi aðgerðir Rússa í Úkraínu, en á sama hátt og ég taldi rétt að íslenskir ráðherrar tækju þátt í Ólympíuleikunum í Sotsjí og nýttu hvert tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri þá tel ég það sama gilda innan Norðurskautsráðsins og þess vegna geri ég athugasemdir við ummæli forseta Íslands gagnvart norska aðstoðarráðherranum,“ sagði Elín á þinginu í dag.

Elín sagðist ekki fá betur séð en að ummæli Norðmannsins væru í samræmi við stefnu norskra stjórnvalda. Hún sagðist því ekki skilja hvað forseti Íslands hefði með það að gera að reyna að átelja aðstoðarráðherrann fyrir ummæli sín.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, mótmælti því að aðstoðarutanríkismálaráðherra Noregs notaði vettvang Norðurskautsráðsins til að gagnrýna athafnir Rússa í Úkraínu í gær.

Því næst spurði Elín Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, um samskipti hans við forseta Íslands sem utanríkisráðherra og hvort Össur teldi tilefni til að gera breytingar á stjórnarskrá til að skýra stöðu Forseta Íslands.

Össur svaraði því játandi og sagði: „Í þeim umræðum sem hafa farið fram hér og utan þings um nauðsyn þess að breyta stjórnarskrá þá hefur þessi þáttur einmitt verið undir og var þetta það sem flokkar lögðu megináherslu á þegar reynt var að breyta stjórnarskránni á fyrsta áratug þessara aldar og einnig á síðasta kjörtímabili.“

Össur sagði að það væri mikil þörf á því að hafa það mun afmarkaðra og skýrt með hvað hætti forsetinn getur tjáð sig og um hvað.

„Það er stund og staður fyrir allt. Allt hefur pólitíska merkingu og það á að vera ríkisstjórnin sem á að hafa síðasta orðið um það hvernig þeir sem eru fulltrúar Íslands tjá sig á erlendri grundu og heima."

Hér að neðan má sjá samskipti Össurar og Elínar á Alþingi í dag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.