Sport

Bjarki og Norma Dögg Íslandsmeistarar í fjölþraut

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarki Ásgeirsson úr Ármanni.
Bjarki Ásgeirsson úr Ármanni. Mynd/Heimasíða Ármanns
Bjarki Ásgeirsson úr Ármanni og Norma Dögg Róbertsdóttir úr Gerplu urðu í dag Íslandsmeistarar í fjölþraut á Íslandsmótinu í áhaldafimleikum en bæði voru þau að vinna titilinn í fyrsta sinn.

Norma Dögg Róbertsdóttir endaði þar með fjögurra ára sigurgöngu Thelmu Rutar Hermannsdóttur og kom í veg fyrir að Thelma Rut yrði sú fyrsta til að vinna sex Íslandsmeistaratitla í fjölþraut.

Norma Dögg var með bestu einkunn í stökki og endaði í þriðja sæti í bæði keppni á tvíslá og á gólfi. Það varð henni ekki að falli að ná bara sjötta besta árangrinum á jafnvægisslá.

Agnes Suto úr Gerplu varð í 2. sæti og Thelma Rut, sem keppir fyrir Gerplu, varð þriðja en það gekk illa hjá fráfarandi Íslandsmeistara í bæði stökki og á tvíslá. Thelma Rut var hinsvegar með bestu einkunn allra á gólfi og varð í 2. sæti á slá þar sem Tinna Óðinsdóttir stóð sig best.

Bjarki Ásgeirsson fékk samtals 78,450 stig og varð efstur þrátt fyrir að ná bestu einkunn í bara einni af sex greinum. Bjarki fékk bestu einkunn á bogahesti en varð í öðru sæti á gólfi og í hringjum.

Valgarð Reinhardsson úr Gerplu endaði í 2. sæti í fjölþrautinni en hann fékk bestu einkunn á gólfi, á tvíslá og á svifrá.

Jón Sigurður Gunnarsson úr Ármanni varð síðan þriðji en hann fékk bestu einkunn allra í hringjum.

Eyþór Örn Baldursson úr Gerplu og Nanna Guðmundsdóttir úr Gróttu urðu Íslandsmeistarar í unglingaflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×