Innlent

Fjöldi bíla dreginn af bílastæði Sundhallarinnar

Bílastæðin eru ætluð viðskiptavinum sundlaugarinnar.
Bílastæðin eru ætluð viðskiptavinum sundlaugarinnar. vísir/daníel
Starfsfólk Sundhallar Reykjavíkur hefur látið draga fjölda bíla af bílastæði sundlaugarinnar að undanförnu, en algengt er að bílum sé lagt í stæðin í langan tíma. Stæðin eru ætluð viðskiptavinum sundlaugarinnar en að sögn starfsmanns er algengt að á annan tug bíla taki á móti starfsmönnum að morgni.

„Það er svolítið stórt hlutfall af stæðunum,“ segir starfsmaðurinn en hann vildi ekki láta nafns síns getið. Hann segir nokkuð um það að sundlaugargestir hafi kvartað undan því að fá ekki stæði fyrir utan. „Þetta eru sjálfsagt íbúar í nágrenninu sem eiga engin stæði. Við höfum fylgst með þessu nokkra daga í röð, skrifað niður númerin á bílunum og tekið ljósmyndir.“

Stæðin eru gjaldfrjáls en í næsta nágrenni, við Barónsstíg, Njálsgötu og Bergþórugötu, eru gjaldskyld bílastæði í miklum meirihluta. Eigendur bílanna virðast því spara sér peninginn með því að leggja við Sundhöllina.

Snjórinn kemur upp um þá brotlegu

Starfsmaðurinn segir auðveldara að átta sig á því hvaða bílar eru ekki á vegum sundlaugargesta núna þegar snjóar. „Það hefur verið snjór á bílunum að morgni og svo standa þeir þarna fram eftir degi. Þetta er því ekkert nema vandræði.“

Starfsmaðurinn segir bílunum jafnvel lagt alveg við innganginn, og við skilti þar sem fram kemur að óviðkomandi bílar verði dregnir í burtu. Þá hafi verið reynt að benda eigendum bílanna á að ekki sé leyfilegt að geyma bílana á stæðinu til lengri tíma með því að skilja eftir miða á framrúðum þeirra.

Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri rekstrar og þjónustu hjá Reykjavíkurborg, segir málið ekki hafa komið inn á borð til sín. „En ef það eru bílar sem er lagt þarna dögum eða jafnvel vikum saman þá verður auðvitað að gera eitthvað í því,“ segir Steinþór.

Starfsmaðurinn segir bílunum jafnvel lagt alveg við innganginn.vísir/daníel



Fleiri fréttir

Sjá meira


×