Innlent

Biðlar til Hönnu Birnu að bjarga fjölskyldu sinni

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Mæðgur frá Kólumbíu sem synjað var um dvalarleyfi hér á landi hafa kært úrskurð Útlendingastofnunar til Innanríkisráðuneytisins. Þær óttast örlög sín þurfi þær að snúa aftur til Kólumbíu. Forstjóri Útlendingastofnunar viðurkennir að úrskurður í málinu hafi tekið of langan tíma.

Mary Luz Suarez Ortiz kom hingað til lands í hópi flóttamanna fyrir sjö árum. Hún hefur meðal annars vakið athygli hér á landi fyrir þátttöku sína í sjónvarpsþættinum MasterChef. Mary Luz fékk íslenskan ríkisborgararétt á síðasta ári.

Susana og Johanna, móðir og systir, Mary Luz, komu hingað til lands fyrir tveimur árum ásamt dóttur Jóhönnu og sóttu um hæli sem flóttamenn. Útlendingastofnun synjaði nýverið mæðgunum um dvalarleyfi og að óbreyttu verður þeim vísað úr landi innan tíðar. Mæðgurnar hafa kært úrskurðin og telja líf sitt í hættu í Kólumbíu. Útlendingastofnun féllst ekki á þau rök.

Málið er nú komið inn á borð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra. Hanna Birna veitti Mary Luz tvívegis viðurkenningu árin 2009 og tíu þá í embætti borgarstjóra. Mary hvetur ráðherra til að bjarga fjölskyldu sinni.

Breyta þarf lögum

Mary Luz óttast afdrif fjölskyldu sinnar verði hún send úr landi. Forstjóri Útlendingastofnunar vildi ekki tjá sig efnislega um mál kólumbísku fjölskyldunnar. Of langan tíma hafi hins vegar tekið að komast að niðurstöðu í málinu. Susana og Johanna hafa beðið úrskurðar í tvö ár.

„Aðstæður í málaflokknum hafa verið mjög erfiðar undanfarin ár. Það eru margir sem eru að bíða. Því miður þá hefur þetta tekið þetta langan tím,“ segir Kristín Víglundsdóttir, forstjóri Útlendingaeftirlitsins.

Kristín telur nauðsynlegt að fara í heildarendurskoðun á lögum um útlendinga á Íslandi. „Við erum að byggja á norskum lögum frá árinu 2002. Það er búið að breyta þeim lögum ytra og útvíkka fjölskyldusameiningaráhrifin. Það er ekki til staðar í okkar lögum.“

Fréttina úr kvöldfréttatíma Stöðvar 2 má sjá eftir tæpar fimmtán mínútur í myndbandinu að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×