Innlent

Gæti flugvöllur Þrándheims orðið fyrirmynd í Reykjavík?

Kristján Már Unnarsson skrifar
Flugbrautin í Þrándheimi var lengd út í sjó með uppfyllingu.
Flugbrautin í Þrándheimi var lengd út í sjó með uppfyllingu. Avinor/Øystein Halvorsen.
Flugvöllurinn í Þrándheimi hefur verið lengdur út í sjó með samskonar hætti og lagt hefur verið til í Reykjavík til að höggva á hnútinn í flugvallardeilunni. Þannig fæst mikið landrými undir íbúðabyggð án þess að notkunarmöguleikar flugvallarins skerðist.

Flugmaðurinn Ómar Ragnarsson er meðal þeirra sem talað hafa fyrir málamiðlun sem sameinar kröfur um aukið landrými undir íbúðabyggð og að flugvöllurinn haldi notagildi sínu. Forsendur eru tvær brautir sem liggi sem næst í kross; austur-vestur brautin verði lengd til vesturs út í sjó og síðan komi ný en minni norður-suðurbraut, með breyttri stefnu, um leið og núverandi norður-suður braut verði lögð af sem gæfi færi á stórum íbúðahverfum á austurhluta flugvallarsvæðisins.

Breyttur Reykjavíkurflugvöllur, sem héldi notagildi að mestu en gæfi færi á miklu rými undir nýja íbúðabyggð, gæti litið svona út.Stöð 2 grafík/Tótla.
Ómar Ragnarsson lýsti þessu í frétt á Stöð 2 í nóvember en þessi hugmynd gæfi færi á stórum íbúðahverfum bæði við Valssvæðið við Hlíðarenda og á svæðinu við skýli Landhelgisgæslunnar. Ómar tók reyndar fram að helst vildi hann halda öllum þremur brautunum en leita verði sáttamöguleika. Hugmynd Ómars þýðir í raun að flugvöllurinn myndi víkja að hluta út í sjó.

Svo vill til að einmitt þetta er nýbúið að gera við flugvöllinn í Þrándheimi, sem er þriðja stærsta borg Noregs og aðeins stærri en Reykjavík. Þar var gerð uppfylling við einn flugbrautarendann og flugvöllurinn færður að hluta út í sjó. Viðbótin í Þrándheimi var miðuð við stórar þotur.

Flugbrautin í Þrándheimi eftir lengingu út í sjó.Avinor/Øystein Halvorsen.

Tengdar fréttir

Svona sér Ómar sátt um flugvöll

Flugmaðurinn sem lent hefur oftar á Reykjavíkurflugvelli en flestir aðrir, Ómar Ragnarsson, segir fáránlegt að einn besti möguleikinn til málamiðlunar verði strax útilokaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×