Innlent

Mældist á 134 kílómetra hraða á Miklubraut

Vísir/Stefán
Tilkynnt var um slys á tveimur veitingahúsum í Reykjavík í nótt. Í Breiðholti var manni hrint niður stiga en var gerandinn farinn af vettvangi er lögregla kom á staðinn. Sjúkralið skoðaði hinn slasaða en áverkar hans reyndust minniháttar.

Á veitingahúsi í miðborginni féll maður einnig niður stiga og rotaðist. Hann var í mjög annarlegu ástandi en var kominn með fulla rænu þegar komið var með hann á slysadeild. Erfiðlega gekk að aðstoða hann þar og var hann fluttur á lögreglustöð. Þangað var hann sóttur af vini sínum sem ætlaði að hafa auga með honum.

Tilkynnt var um ofurölvi stúlku á veitingahúsi í miðborginni. Lögreglumenn reyndu að koma henni heim en það gekk ekki og var hún vistuð í fangageymslu.

Lögregla stöðvaði þrjá ökumenn í borginni í nótt. Einn þeirra mældist á 134 kílómetra hraða á klukkustund á Miklubraut, þar sem leyfður hámarkshraði er 60. Hann var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða og á von á sekt. Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um ölvun við akstur og sá þriðji hafði aldrei öðlast ökuréttindi. Sá liggur einnig undir grun um  brot á lyfjalögum og eru þrír farþegar í bifreið hans grunaðir um vörslu fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×