Innlent

Þjóðaratkvæðagreiðsla fjármálaráðherra ekkert síðri svik

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, fagnar því að opnað sé á þjóðaratkvæðagreiðslu.
Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, fagnar því að opnað sé á þjóðaratkvæðagreiðslu.
Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, telur að þjóðaratkvæðagreiðsla um að slíta viðræðum við Evrópusambandið séu ekki síðri svik af hálfu Sjálfstæðisflokksins og ef engin atkvæðagreiðsla fari fram. Katrín segir fjármálaráðherra í leikjafræði og það sé henni ekki að skapi.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í samtali við kvöldfréttir Stöðvar 2 í gær að hugsanlegt væri að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka. Ef þjóðin felldi þá tillögu væri staðan gagnvart Evrópusambandinu óbreytt.

Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, fagnar því að opnað sé á þjóðaratkvæðagreiðslu en telur tillögu fjármálaráðherra óheppilega.

„Það er jákvætt að fjármálaráðherra skuli vera til viðræðu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Með hvaða hætti það er gert þá finnst mér að það eigi að spyrja þjóðina hreint út og hætta að stunda þessa leiki eins og mér finnst fjármálaráðherra vera að gera núna. Þetta er leikjafræði sem ég kann ekki vel við og krafan er sú að menn komi hreint fram og spyrji hreint út hvað þjóðin vill,“ segir Katrín.

Jafnmikil svik

Katrín telur að tillaga fjármálaráðherra sé allt önnur en boðað var fyrir kosningar. Fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um að slíta viðræðum við Evrópusambandið þá séu það ekki síður svik við kjósendur.

„Það eru jafnmikil svik í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu eins og að gera þetta ekki. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn og vona að formaður Sjálfstæðisflokksins sé búinn að opna á þjóðaratkvæðagreiðslu og sé til viðræður um hana,“ segir Katrín. Hún leggur áherslu á að þjóðin fái að segja hug sinn.

„Ég myndi spyrja hvort að þjóðin vilji halda viðræðunum áfram eða hvort það eigi að hætta þeim. Það er eðlilegast. Spyrjum bara þjóðina hreint út hvað hún vill og fáum það skýrt fram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×