Innlent

Vilja segja upp samningi um framkvæmdastopp

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Sundabraut er á ný komin á samgönguáætlun og stefnt er að því að hefja samstarf einkaaðila og ríkissins vegna fjármögnun hennar. Oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík segir það hafa verið mistök að fresta stórum samgönguframkvæmdum um áratug.

Sundabraut hefur á aðalskipulagi Reykjavíkur frá árinu 1984 og hafa verið gerðar fjölmargar tillögur að framkvæmd hennar. Ríkisstjórnin samþykkti í vikunni að Sundabraut færi aftur á samgönguáætlun sem nær til ársins 2016. Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík, fagnar þessu.

„Það er mjög mikilvægt að það sé verið að boða stærri framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu því það hefur allt stefnt í framkvæmdastopp næstu tíu árin. Við vitum að það er ekki komið að framkvæmdinni - hún er einhvers staðar inni í framtíðinni en við nú vitum við af henni og getum velt upp kostunum við að fara í þessa framkvæmd. Sundabraut yrði gríðarleg samgöngubót,“ segir Halldór í samtali við kvöldfréttir Stöðvar 2.



Halldór Halldórsson oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Einn áfangi í einu

Í úttekt sem gerð var um Sundabraut árið 2008 var kostnaður áætlaður um 30-40 milljarðar króna. Halldór vill taka einn áfanga í einu og byrja á að opna nýja leið til Grafarvogs frá Sundahöfn. Endurkoma Sundabrautar á samgönguáætlun gæti verið vísbending um frekari framkvæmdir í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Þær hafa legið í dvala undanfarin ár og gagnrýnir Halldór samning sem núverandi borgarstjórn gerði um stopp á stærri samgönguframkvæmdum í borginni í áratug.

„Við viljum segja upp samningi um að setja eingöngu pening í almenningssamgöngur, jafn mikilvægar og þær eru,“ segir Halldór. „Við viljum að það sé sett meira fjármagn frá ríkinu í samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Að afsala sér öllum framkvæmdum langt fram í tímann - það skil ég ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×