Innlent

Frosti með grundvallar misskilning í þjóðhagfræði

Heimir Már Pétursson skrifar
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og viðskiptanefnd gefur lítið fyrir skoðanir formanns nefndarinnar um að hækka beri bindiskyldu viðskiptabankannna hjá Seðlabankanum og að þeir njóti allt of góðara kjara hjá bankanum. Þetta séu byrjendafræði í hagfræði.

Frosti Sigurjónsson formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sagði í fréttum Stöðvar 2 og Vísis í gær að viðskiptabankarnir högnuðust um of á áhættulausum innstæðum sínum hjá Seðlabankanum.

„Seðlabankinn er að ávaxta 206 milljarða fyrir bankana á mjög háum vöxtum, nánar tiltekið 5 til 5,7 prósenta vöxtum. Þetta kostar með sama áframhaldi tíu til ellefu milljarða á ári og þetta er allt of hátt, allt of mikið,“ sagði Frosti í gær.

Nær væri að hækka bindiskyldu bankanna að mati Frosta en hún er nú 2 prósent.

Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins situr í efnahags- og viðskiptanefnd með Frosta og er honum algerlega óssammála.

„Já, ég varð var við sumt af þessu á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar með seðlabankastjóra og aftur í gær. Það gætir einhvers misskilnings í þessu. Það fyrsta sem ég vil segja er að bindiskylda er nú ekki merkilegt fyribrigði í kennslubókum um fjármálafræði og fjármálastofnanir. Þingmaðurinn ætti að lesa sig aðeins til. Það er ekki mikil lesning, svona tvær, þrjár til fjórar línur,“ segir Vilhjálmur.

Bindiskyldan hafi enga þýðingu heldur lausafjár- og eiginfjárkvaðir bankanna.

„Ef Seðlabankinn borgar ekki vexti af innistæðum sínum þá leitar þetta út með einhverjum hætti og hefur t.d  áhrif á viðskiptajöfnuð og þar með gengi. Þannig að það eru fleiri þættir sem eru undirliggjandi í þessu,“ segir Vilhjálmur.

Þá sé afkoma Seðlabanka afgangsstærð í peningamálastjórn. Það sem skipti höfuðmáli sé verðbólga, viðskiptajöfnuður og afgangur á ríkisfjármálum. Vaxtakjör Seðlabankans séu í samræmi við stýrivexti.

„Og ef innistæðuvextir í Seðlabankanum yrðu færðir niður myndu viðskiptavinirnir (viðskiptabankanna) borga þetta; annað hvort lægri innlánsvextir eða hærri útlánsvextir. Þannig að þettta er einhver misskilningur og eiginlega grundvallar misskilningur,“ segir Vilhjálmur. Þetta séu byrjendafræði í þjóðhagfræði.

„Hún er í tveimur til þremur línum í þeim kennslubókum sem ég nota við að kenna starfsemi fjármálastofnana.“

Er Frosti Sigurjónsson þá byrjandi í hagfræði að þínu mati?

„Þú skalt spyrja hann um það. Ég ætla ekki að dæma um annað en þetta,“ segir Vilhjálmur Bjarnason.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×