Innlent

Ýmist fáklæddar eða ljótar og feitar

Hrund Þórsdóttir skrifar
Simone Schreiber, framleiðandi hjá CCP, hefur spilað tölvuleiki í 25 ár og segir staðalímyndir kvenna sem stundi þetta áhugamál pirrandi.
Simone Schreiber, framleiðandi hjá CCP, hefur spilað tölvuleiki í 25 ár og segir staðalímyndir kvenna sem stundi þetta áhugamál pirrandi.
Konur í tækni er félagsskapur sem hefur að markmiði að auka áhuga kvenna á tæknigreinum og hvetja þær til starfsframa þar. Á fundi félagsins hjá CCP í morgun var rætt um hlutverk kvenna í tölvuleikjaheiminum.

„Þær hafa kannski fáar fyrirmyndir  og þeim bara dettur ekki í hug að þær hafi áhuga á þessu. Ég hef nýlega heyrt tvær mismunandi sögur af stelpum sem eru í tölvunarfræði af því að þær þurftu að taka einn forritunarkúrs í öðru námi og sáu að þetta var eitthvað sem þeim fannst skemmtilegt og færðu sig yfir,“ segir Berglind Rós Guðmundsdóttir, þróunarhópsstjóri hjá CCP.

Árið 2006 voru 38% þeirra sem spiluðu tölvuleiki konur en í fyrra var hlutfallið orðið 45%. Þar af spila þó um 60% aðeins svokallaða kaffipásuleiki eða símaleiki.

Aðeins 5% spilara CCP eru konur en í þróun eru leikir sem vonast er til að höfði til þeirra.

„Við viljum ekki stelpuleiki með bleikum smáhestum og regnbogum en hluti eins og að geta valið sér kvenkarakter í leikjunum og ýmislegt fleira hefur vantað,“ segir Berglind.

Simone Schreiber, framleiðandi hjá CCP, hefur spilað tölvuleiki í 25 ár en segir þá mjög karlmiðaða. „Kvenkarakterar standa nær aldrei til boða og leikirnir eru oft mjög ofbeldisfullir og bara höfða ekki til kvenna,“ segir hún.

Simone segir staðalímyndir kvenna sem spili tölvuleiki lífseigar. „Þær eru ýmist álitnar kynþokkafullar bombur sem spili fáklæddar eða ljótar og feitar konur eða stelpur sem geti aldrei eignast kærasta,“ segir hún. „Báðar þessar staðalímyndir eru mjög pirrandi.“

Af hverju er mikilvægt að höfða til fleiri kvenna?

„Af því að ef konur kæmu í auknum mæli að þróun tölvuleikja yrðu þeir betri og myndu höfða til stærri hóps, ekki bara til fleiri kvenna heldur líka til karla sem spila ekki nú þegar. Fjölbreytileiki leikjanna myndi líka aukast,“ segir Simone.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×