Innlent

Forsætisráðherrann hefur tekið þátt í einni sérstakri umræðu af 45

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur tekið þátt í einni sérstakri umræðu af 45 á yfirstandandi þingi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur tekið þátt í einni sérstakri umræðu af 45 á yfirstandandi þingi. visir/daníel/gva
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur tekið þátt í einni sérstakri umræðu af 45 á yfirstandandi þingi.

Þetta kom fram í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun en Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sagði í þættinum að hann og fleiri stjórnarandstöðuþingmenn hafi ekki fengið svör við beiðnum um slíkar umræður.

Guðmundur vísaði til beiðna um sérstaka umræðu um fullveldismál, gjaldeyrishöft og styrki til húsverndunar.

Guðmundur Steingrímsson og og Unnur Brá Konráðsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, voru gestir þáttarins og ræddu þau þingstörfin.

„Það virðist vera bara einfaldlega rauður þráður að forsætisráðherra svarar ekki beiðnum þingmanna um sérstaka umræðu. Það er mjög merkilegt. Það er ég hef aldrei séð svona áður,“ sagði Guðmundur og bætti við að af 45 umræðum sem hefðu farið fram á kjörtímabilinu hefði forsætisráðherra mætt í eina.

Unnur Brá sagði að stundum henti ekki sá tími sem þingforseti og þing gefi til umræðu þegar þingmenn eru í öðrum störfum en vissulega þyrfti að skoða málið.

Nennir ekki að bíða lengur

„Ég nenni ekki lengur að bíða eftir hæstvirtum forsætisráðherra, að hann komi hingað og tali við mig um afnám gjaldeyrishafta og fer fram á að hæstvirtur fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, geri það,“ sagði Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, í ræðustól á Alþingi í gær.

Þá sagði Guðmundur frá því að hann hafi lagt inn beiðni um sérstakar viðræður við forsætisráðherra fyrir sjö vikum og engin viðbrögð fengið.

Sigmundur var ekki staddur á Alþingi í gær en hann er staddur erlendis í einkaerindum.

„Ég hef haft beiðni fyrirliggjandi um sérstaka umræðu við hæstvirtan forsætisráðherra síðan 27. janúar  um að koma hingað og ræða við okkur þingmenn um afnám gjaldeyrishafta og samninga við erlenda kröfuhafa, sem er málefni sem hæstvirtur forsætisráðherra ræddi töluvert og af mikilli ákefð í kosningabaráttunni síðustu. Þessari beiðni hefur semsagt ekkert verið sinnt. Það er mjög óvenjulegt,“ sagði Guðmundur á þinginu í gær.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, gagnrýndi einnig forsætisráðherrann á þinginu í gær og sagði: „Er þetta boðlega framkoma, virðulegi forseti, gagnvart Alþingi? Ég vil bara fá svör um það því þetta gengur ekki lengur,“ sagði Katrín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×