Innlent

Norskir herflugmenn velta F-16 yfir Íslandi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Norsk F-16 herþota í Keflavík.
Norsk F-16 herþota í Keflavík. Mynd/Flugher Noregs.
Norski flugherinn hefur birt myndskeið sem tekin voru um borð í F-16 orustuþotum Norðmanna á heræfingu yfir Íslandi í síðasta mánuði. Þá fór fram æfingin Iceland Air Meet 2014 með þátttöku Íslands, Noregs, Finnlands, Bandaríkjanna, Hollands og Svíþjóðar. Sex norskar herþotur voru staðsettar á Íslandi frá 27. janúar til 21. febrúar en þær sinntu jafnframt loftrýmiseftirliti á vegum NATO.

Í einu myndskeiðinu sjást norskar herþotur meðal annars velta sér í 90 gráðu beygju yfir Keflavíkurflugvelli en það má nálgast hér á vef Teknisk Ukeblad. Annað myndskeið sýnir eldsneytistöku F-16 þotu á flugi yfir Íslandi en það má sjá hér að neðan.

Norskar herþotur ásamt bandarískri eldsneytisvél yfir Íslandi.Mynd/Flugher Noregs.
Í fréttatilkynningu íslenska utanríkisráðuneytisins kom fram að æfingin var með stærstu varnaræfingum sem fram höfðu farið hérlendis á síðustu árum en í henni tóku þátt 300 manns og 23 erlend loftför, þar með taldar 16 herþotur frá Norðurlöndunum, ásamt tveimur finnskum leitar- og björgunarþyrlum. Heræfingin þótti marka tímamót í norrænu samstarfi en þetta var í fyrsta sinn sem Svíar og Finnar tóku þátt í loftvarnaræfingum á Íslandi. Íslenska Landhelgisgæslan tók þátt í æfingunni og samhæfði leitar- og björgunarstörf með flugherjum hinna ríkjanna.


Tengdar fréttir

Söguleg útvíkkun á norrænu samstarfi

Utanríkis- og varnarmálaráðherrar Norðurlandanna lýsa loftvarnaæfingunni sem nú stendur yfir á Íslandi sem sögulegri útvíkkun á norrænu samstarfi.

Herþotur raska rónni á Reykhólum

Næstum heyrnarlaus vistmaður á dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum vaknaði nýverið upp af værum eftirmiðdagsblundi við mikinn hávaða og hélt að hann hefði fengið heyrnina á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×