Innlent

Svona voru samskipti Gunnars Braga við Rúv

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fréttastofa RÚV er ósátt við að hafa ekki fengið viðtal við Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra að loknum fundi í Utanríkismálanefnd Alþingis í hádeginu í dag.

„Blessaður Gunnar, fáum við örfáar mínútur með þér?“ spurði Heimir Már Pétursson, fréttamaður Stöðvar 2, þar sem hann og fréttamaður Ríkisútvarpsins biðu þess að Gunnar kæmi af fundi.

„Ef þið klippið ekki allt til,“ sagði Gunnar Bragi. Fréttamaður RÚV, Kári Gylfason, svaraði því til að hann gæti ekki lofað því hvernig viðtalið yrði klippt. Svaraði Gunnar Bragi að bragði:

„Þá tala ég ekki við þig, þá tala ég ekki við þig.“

Heimir Már tók þessi orð utanríkisráðherra ekki alvarlega og spurði hann strax út í ástandið í Úkraínu. Gunnar Bragi svaraði spurningum Heimis Más án athugasemda eins og sjá má í fréttum Stöðvar 2 í kvöld en fréttamaður RÚV tók því sem svo að ráðherra hefði ekkert við hann að tala nema að uppfylltum fyrrnefndum skilyrðum.

Myndbandið má sjá í spilaranum að ofan.

Kári Gylfason segist í samtali við Vísi bæði hafa óskað eftir viðtali við ráðherrann fyrir og eftir fundinn í dag en ekki fengið.

Fréttastofa Rúv er ekki sátt við viðbrögð Gunnars Braga líkt og fjallað er um á heimasíðu Rúv. Þá tjáði Óðinn Jónsson, fréttastjóri RÚV, skoðun sína á Fésbókinni líkt og sjá má að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×