Innlent

Fengu undanþágu til að kynda á Þingeyri

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sundlaugin á Þingeyri hefur verið opnuð að nýju.
Sundlaugin á Þingeyri hefur verið opnuð að nýju. Mynd/Stöð 2.
Dýrfirðingar og aðrir notendur sundlaugarinnar á Þingeyri geta tekið gleði sína á ný. Ísafjarðarbær hefur tilkynnt að fengist hafi undanþága til að kaupa forgangsorku. Því verður hægt að kynda sundlaugina og opna aftur en henni var lokað um mánaðamótin vegna raforkuskorts.

Fyrir helgi var tilkynnt að sundlaugarnar á Þingeyri og á Hólmavík yrðu lokaðar um óákveðinn tíma vegna bágrar vatnsstöðu í lónum Landsvirkjunar. Því þurfti að skerða ódýra afgangsorku til Orkubús Vestfjarðar og var búist við að þetta ástand gæti varað í tvo mánuði.

Íþróttamiðstöðin á Þingeyrarodda.Mynd/Stöð 2.
Engin afgangsorka fæst þó á næstunni heldur þarf á kaupa forgangsorku á þrefalt hærra verði svo unnt sé að synda á Þingeyri, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Ísafjarðarbær segir að skerðingar á umframorku ættu ekki að hafa frekari áhrif á gesti sundlaugarinnar eða íþróttahússins á Þingeyri.

Engar fréttir hafa borist frá Strandabyggð um hvort Hólmavíkurlaug verði opnuð aftur í bráð.


Tengdar fréttir

Sundlaugunum á Hólmavík og Þingeyri lokað

Ástæðan er bág vatnsstaða í lónum Landsvirkjunar sem veldur því að ekki er hægt að afhenda svokallaða "ótrygga orku“. Lokunin mun vara um óákveðinn tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×