Innlent

Telja að staðbundin mengun í Hellnahrauni nái ekki út fyrir hverfið

Stefán Árni Pálsson skrifar
Náttúrfræðistofnun hefur fengið niðurstöður úr mælingunum og er að vinna úr þeim skýrslu til birtingar.
Náttúrfræðistofnun hefur fengið niðurstöður úr mælingunum og er að vinna úr þeim skýrslu til birtingar. visir/stefán
Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis telur í ljósi upplýsinga sem fram komu á fundi nefndarinnar þann 3.mars sl. að gögn bendi til þess að staðbundin mengun í iðnaðarhverfinu í Hellnahrauni nái ekki út fyrir hverfið en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hafnafjarðarbæ.

Á fundi í heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis mánudaginn  3. mars 2014 voru þungmálmar og brennisteinn i mosa í Hafnarfirði til umræðu. 

Í framhaldi af skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands um ,,Þungmálma og brennistein í mosa á Íslandi 1990-2010: Áhrif iðjuvera” og umræðu í framhaldinu ákvað Hafnarfjarðarbær og heilbrigðisnefndin að skoða málið enn frekar og voru sjö mosasýni tekin til rannsóknar í lok október 2013.

Tvö sýni voru tekin þar sem mengun hafði áður mælst í iðnaðarhverfinu, tvö sýni voru tekin inni í íbúðarbyggðinni á Völlunum, tvö sýni á milli íbúðarbyggðar og iðnaðarsvæðisins og loks eitt skammt suður af iðnaðarsvæðinu.

Tilgangurinn var að afla fyllri upplýsinga um styrk þungmálma og brennisteins í nágrenni iðnaðarsvæðisins í Hellnahrauni og kanna hvort ástæða væri til að óttast að mengunin bærist til íbúðahverfisins.

Náttúrfræðistofnun hefur fengið niðurstöður úr mælingunum og er að vinna úr þeim skýrslu til birtingar. Heilbrigðisnefnd telur í ljósi upplýsinga sem fengist hafa bendi gögn til að staðbundin mengun í iðnaðarhverfinu í Hellnahrauni nái ekki út fyrir hverfið og sama á við um loftgæðin en rykmælingar voru framkvæmdar  á tímabilinu frá 2. nóvember 2013 til 11. janúar 2014  og liggja niðurstöðurnar nú  fyrir hjá Nýsköpunarmiðstöð.

„Nú bíðum við bara eftir skýrslum bæði frá Nýsköpunarmiðstöð og Náttúrufræðistofnun og munum um leið og þær koma í hús kynna niðurstöður fyrir bæjarbúum,“ segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri Hafnafjarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×