Innlent

Getur ekki fylgt dóttur sinni upp að altarinu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
VÍSIR/GVA
„Það hvarflaði aldrei að okkur að hjólastólaaðgengi í kirkju væri ekki tryggt,“ segir Signý Friðriksdóttir, en hún og unnusti hennar, Magnús Theódórsson ætla að gifta sig í júní næstkomandi.

Af tilfinningalegum ástæðum var ákveðið að athöfnin færi fram í Háteigskirkju. Faðir Signýjar er svaramaður þeirra, en hann notast við hjólastól. Óskað var eftir að settur yrði upp rampur svo hann kæmist að altarinu. Þeirri beiðni var hafnað af presti í Háteigskirkju.

„Kirkjuvörðurinn sagði að eina lausnin væri að lyfta upp stólnum. Það er bara ekki boðlegt. Pabbi er 2 metrar á hæð og 100 kíló. Þetta yrði bara niðurlægjandi fyrir hann.“

Signý talaði við prest fatlaðra, Guðnýju Hallgrímsdóttur, sem hafði samband við prestinn í Háteigskirkju. Presturinn kom með þá lausn að Signý gæti sjálf komið með ramp með því skilyrði að hann yrði fjarlægður strax að athöfn lokinni.

„Presturinn og kirkjuvörðurinn í Háteigskirkju standa við þá ákvörðun að hafa ekki aðgengi fyrir hjólastóla upp að altarinu og ætla sér ekki að breyta því.“

Kirkjuvörður í Háteigskirkju segir Signýju vera þá fyrstu sem kemur með slíka beiðni og segir engan starfsmann kirkjunnar kannast við það beiðni sem þessi hafi borist á borð þeirra.

Signý er reið og undrandi yfir þessari framkomu. Leitað var lausna í þessu máli en án árangurs. Kirkjan var því afbókuð en farið var fram á þá kröfu að kirkjan myndi greiða reikninginn vegna nýrra boðskorta.

„Takk fyrir að láta mig vita, ég afbóka ykkur - við borgum enga reikninga,“ stóð í bréfi kirkjuvarðarins.

Signý og Magnús munu láta gefa sig saman í Guðríðarkirkju, þar sem aðgengi fatlaðra er að fullu tryggt.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.