Innlent

Munur á lögum og þingsályktunartillögu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Björg segir þingið í raun aldrei geta ákveðið að það verði lagalega bundið til fylgja niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um að halda áfram samningaviðræðum við Evrópusambandið.
Björg segir þingið í raun aldrei geta ákveðið að það verði lagalega bundið til fylgja niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um að halda áfram samningaviðræðum við Evrópusambandið. Vísir/Vilhelm
Björg Thorarensen lagaprófessor telur að þingið geti ekki bundið sjálft sig með þingsályktunartillögu enda hafi þingsályktun ekki lagalegt skuldbindingargildi.

Vísir sagði frá því fyrr í dag að Þorsteinn Pálsson og Sigurður Líndal töldu þingið geta ákveðið að halda bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort hætta eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið með því að breyta orðalagi þingsályktunartillögu. 

„Eigi þjóðaratvæðagreiðsla að vera lagalega bindandi snýst hún með einhverjum hætti um þátttöku þjóðarinnar í lagasetningu, t.d. að lagafrumvarp sem Alþingi hefur samþykkt sé borið undir þjóðina  til samþykktar eða synjunar. Þannig tryggir stjórnarskráin  að þjóðin eigi lokaorðið um gildi laga sem forseti neitar að undirrita samkvæmt 26. grein“

Hugsanlega getur Alþingi  einnig sjálft ákveðið að binda gildistöku laga sem það hefur samþykkt  við skilyrði um samþykki þjóðarinnar.  „En það getur ekki átt við um þingsályktun, því hún er ekki háð neinum áskilnaði um gildistöku eins og lög“ útskýrir Björg.

Hún segir þingið í raun aldrei geta ákveðið að það verði lagalega bundið til fylgja niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um að halda áfram samningaviðræðum við Evrópusambandið.  „Hér er því aðeins hægt að ræða um pólitíska skuldbindingu með pólitískar afleiðingar. Telji ríkisstjórn og meirihluti þings að baki henni  ekki mögulegt að fylgja skýrum vilja þjóðarinnar í tilteknu máli, verður að reyna á það í nýjum kosningum hvort kjósendur velja nýjan pólitískan meirihluta sem er tilbúinn að leiða samningviðræður við ESB.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×