Innlent

Ófært á Ísafjörð en rjómablíða á lokuðum flugvelli á Þingeyri

Kristján Már Unnarsson skrifar
Þingeyrarflugvöllur. Hann er lokaður vegna skemmda í slitlagi.
Þingeyrarflugvöllur. Hann er lokaður vegna skemmda í slitlagi. Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Þingeyrarflugvöllur, sem fyrir átta árum var byggður upp fyrir 200 milljónir króna til að vera varaflugvöllur Ísafjarðar, hefur verið lokaður í heilt ár vegna slitlagsskemmda. Engir peningar fást til að gera við.

Flugvöllurinn var byggður upp á árunum 2005 og 2006, brautin lengd í 1.200 metra, aðflugsljós sett upp og öryggissvæði lögð í fulla breidd. 190 milljóna króna kostnaður var réttlættur með því að rekstraröryggi flugs til Vestfjarða myndi aukast til muna þar sem aðflug í Dýrafirði væri betra en á Ísafirði og veðurfar skárra.

Fréttamenn Stöðvar 2 reyndu það á dögunum að flugi á Ísafjörð var aflýst sama dag og rjómablíða var á Þingeyrarflugvelli og vindpokinn þar varla lyftist. Ekki var lendandi á flugvellinum á Ísafirði en þá var hvöss austanátt í Skutulsfirði. 

Það var um þetta leyti í marsmánuði í fyrra sem skemmdir komu í ljós í slitlagi brautarinnar á Þingeyri og hefur flugvöllurinn verið lokaður síðan. Frá Isavia fengust þær upplýsingar að viðgerð myndi kosta hátt í eitthundrað milljónir króna og þeir fjármunir væru ekki til.

Á Þingeyri eru íbúar ekki sáttir, eins og eigandi gistihússins Við fjörðinn, Sigríður Helgadóttir, lýsti í viðtali í fréttum Stöðvar 2, en um 50 kílómetrar eru á milli Ísafjarðar og Þingeyrar.


Tengdar fréttir

Vilja lengja og lagfæra Þingeyrarflugvöll

Bæjarráð Bolungarvíkur vill að Þingeyrarflugvöllur verði lengdur og lagfærður hið fyrsta til hagsbóta fyrir ferðaþjónustu og beinan útflutning á ferskum fiski.

Þingeyrarflugvöllur vígður

Þingeyrarflugvöllur, sem hefur verið endurbyggður, verður vígður 19. ágúst af Sturlu Böðvarssyni, samgönguráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×