Innlent

Íbúar við Lýsisreitinn ekki tryggðir fyrir skemmdum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Íbúar á svæðinu hafa haft áhyggjur af tryggingarmálum.
Íbúar á svæðinu hafa haft áhyggjur af tryggingarmálum.
„Verktakinn skrifaði undir yfirlýsingu á fundinum þar sem lofað var að lækka sprengikraftinn um helming til að koma til móts við íbúa á svæðinu,“ segir Birgir Þröstur Jóhannsson, arkitekt og formaður íbúasamtaka Vesturbæinga, í samtali við Vísi.

Íbúasamtök Vesturbæjar boðuðu til fundar vegna framkvæmda við gamla Lýsisreitinn í Vesturbæ Reykjavíkur þann 11. febrúar. Fundurinn var haldinn með íbúum svæðisins og einnig voru viðstaddir fulltrúar frá tryggingarfélaginu VÍS, verkkaupa, verktaka og fulltrúar frá Reykjavíkurborg.

Íbúar svæðisins hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna skemmda á húsnæði sínu. Unnið er að því að sprengja upp klöpp á reitnum með tilheyrandi ónæði fyrir íbúa. Sprengt er frá morgni til kvölds.

Reisa á um 500 manna byggð á gamla Lýsisreitnum og þarf að sprengja tvisvar til fimm sinnum á dag til að hægt sé að fjarlægja jarðveg. Byggðin á reitnum er umdeild og framkvæmdirnar fara einnig illa í íbúa í grennd við framkvæmdasvæðið.

Íbúar á svæðinu hafa haft áhyggjur af tryggingarmálum

„Það kom fram á fundinum að íbúar á svæðinu eru ekki tryggðir fyrir skemmdum sem verða af völdum sprenginganna. Ástæðan fyrir því er að verktakinn hefur verið að sprengja innan lagalegra marka. Aftur á móti má enginn lagalega séð skemma eignir annarra. Ef verktakinn sættir sig ekki við að þurfa greiða tjónið þá þurfa eigendur bygginganna að leita réttar síns fyrir dómsstólum.“

Birgir segir að töluverð ánægja hafi verið með fundinn en ekki endilega ánægja með þau svör sem fram komu.

„Það er vissulega mjög óþægilegt að heyra að maður sé ekki tryggður fyrir skemmdum. Það er einnig mjög óeðlilegt að enginn lög séu til varðandi ónæði almennt. Fundargestum fannst einnig mjög einkennilegt að það væri yfirleitt leyfilegt að sprengja inni í miðri borg.

Skemmdir hafa verið unnar

Birgir segir að það sé ljóst að skemmdir hafa verið unnar á byggingum á svæðinu.

„Í reglugerð heilbrigðiseftirlitsins varðandi sprengingar kemur fram að verktaki verði að passa upp á að skemma ekki eignir annarra við svæðið. Verktakinn er einfaldlega ekki að fylgja þeirri reglugerð. Það eru komnar fram sprungur við nokkrar byggingar og síðan er spurning hvernig þetta fer með lagnir og annað slíkt."

Íbúasamtök Vesturbæjar hafa farið fram á það við Reykjavíkurborg að leyfa ekki sprengingar á svæðum þegar ekki er búið að ganga frá tryggingamálum.

„Við förum fram á það að tryggingar fyrir skemmdum liggi alltaf fyrir þegar um sprengingar eru að ræða, hvort sem það er undir eða yfir mörkum. Samtökin krefjast þess einnig að heilbrigðiseftirlitið taki yfir þennan ónægjuþátt. Heilbrigðiseftirlitið sér bara um ónæði varðandi hávaða en í dag eru enginn lög varðandi titring frá sprengingum og aðrar tegundir af ónæði.“


Tengdar fréttir

Þurfum að læra að byggja í þéttri byggð

Þörf er á skýrari verklagsreglum við framkvæmdir í þéttri byggð, segir Páll Hjaltason, formaður umhverfis- og skipulagsráðs. Tryggja verði að ekki verði aftur röskun eins og á Lýsisreitnum. Undrandi á afstöðu tryggingafélaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×