Innlent

Svikin loforð

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Þetta var stórt fyrirheit og mikilvægt sem formaður flokksins gaf fyrir kosningarnar. Ég tel og taldi þá að það hafi borið vott um stjórnvisku að setja það fram. Að gera ekki málamiðlun um efni málsins heldur aðferðarfræðina til þess að ná niðurstöðu. Að sama skapi þegar svona stórt fyrirheit er svikið þá eru það stór svik,“ segir Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Hann segir ómögulegt að segja til um það hvort þessi ákvörðun þingflokksins, um að slíta aðildarviðræðum við ESB muni hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

„Ég veit engin dæmi þess að svona stór fyrirheit í kosningum um jafn mikilvægt mál hafi verið svikin án einhverra afleiðinga.“

Aðspurður um hvort klofningur innan flokksins verði segist hann ekki geta sagt til um það og að þetta hafi komið fólki á óvart.

„Það eru fádæmi að bíða ekki eftir skýrslu Alþjóðastofnunar Háskólans. Mjög sérkennilegt. Þetta munu menn örugglega bara melta og skoða á næstu vikum en það er alveg ljóst að ef þetta hefur átt að þagga niður umræðuna þá mun það ekki gerast. Þetta er ekki leiðin til þess.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×