Innlent

Bækur fyrir málhömluð börn: "Þau eiga engan samastað í heilbrigðiskerfinu"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Hanna Kristín Skaftadóttir hefur ásamt barnsföður sínum búið til fjórar bækur fyrir börn með tal- og málþroskaraskanir undir nafninu MiMi Creations.

„Við eigum lítinn dreng, Mikael Björn, sem verður fjögurra ára í sumar og hann er verulega málhamlaður. Við vorum á leið utan í ferðalag og fundum út að það væru engar bækur til á markaðnum sem voru að notast við Tákn með tali, svo við gengum bara í verkið sjálf,“ segir Hanna Kristín.

Tákn með tali byggir á einföldum hreyfitáknum sem notuð eru á markvissan hátt til stuðnings töluðu máli. Hanna segir bækurnar gagnast öllum börnum en helst þeim sem glími við málhamlanir auk tvítyngdra barna og barna með downs heilkenni.

Og hefur þetta efni nýst Mikael Birni?

„Mjög vel. Við byrjuðum sjálf að teikna myndir handa honum og út frá því kom hugmyndin að gera bókina. Við áttum myndirnar, það vantaði bækur og við bara smelltum þessu saman og létum af þessu verða,“ segir hún og í meðfylgjandi myndskeiði má sjá þau mæðginin beita tækninni.

Söguhetjan MiMi heitir í höfuðið á Mikael, sem kallar sig sjálfur því nafni. Bækurnar um MiMi eru væntanlegar í bókabúðir og app er í smíðum. „Rafbókin er komin út og er inni á emma.is og við erum bara að vinna í að færa hann til lífs, hann MiMi.“

Eins og við höfum greint frá hafa um 500 börn verið á biðlista eftir talþjálfun á Íslandi og Hanna segir stöðu þeirra slæma. „Það vantar mikið upp á og þau eiga í raun og veru engan samastað í heilbrigðiskerfinu yfir höfuð, því miður,“ segir Hanna Kristín að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×