Sport

Howell öruggur sigurvegari í skíðafimi kvenna | Myndband

Dara Howell, 19 ára stúlka frá Kanada, bar höfuð og herðar yfir aðra keppendur í skíðafimi kvenna á Vetrarólympíuleikunum í dag.

Howell tryggði sér Ólympíugullið með ótrúlegri fyrri ferð í úrslitunum en hún fékk 94,20 í einkunn sem var nær tíu heilum betri einkunn en næsta stúlka fékk.

Sú kanadíska á þrenn bronsverðlaun frá X-leikunum en var að vinna sín fyrstu stóru gullverðlaun og það líka með svona miklum glæsibrag.

Hún er ennfremur fyrsti Ólympíumeistarinn í skíðafimi þar sem þetta er ný keppnisgrein á leikunum.

Devin Logan frá Bandaríkjunum fékk silfrið en hún fékk 85,40 í einkunn fyrir fyrri ferðina en keppendur fara tvisvar niður brekkuna og telur betri ferðin.

Kanadamenn gátu svo fagnað enn frekar því þeir hirtu einnig bronsið. Það gerði Kim Lamarre með frábærri seinni ferð upp á 85,00 en hún fékk aðeins 15,00 fyrir fyrri ferðina.

Hún skaut Önnu Segal frá Ástralíu niður í fjórða sæti en Segal fékk 77,00 fyrir fyrri ferð sína en þær tvær kandarísku og Devin Logan voru í sérflokki í dag.

Howell í háloftunum í Sotsjí í dag.Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×