Innlent

Stormur í kvöld og fram eftir nóttu

Elimar Hauksson skrifar
Björgunarsveitir eru víða í viðbragðsstöðu.
Björgunarsveitir eru víða í viðbragðsstöðu. Mynd/Vilhelm
Búast má við áframhaldandi hvassviðri og stormi í kvöld og fram eftir nóttu við suðurströndina og að vindhviður fari í allt að 40 metra á sekúndu undir Eyjafjöllum og í Öræfum. Óveður er nú á Kjalarnesi, við Gjábakka, undir Eyjafjöllum og á Reynisfjalli.

Búast má við vindhviðum um landið suðvestanvert fram á nótt, allt að 30 metra á sekúndu á Kjalarnesi og við Hafnarfjall. Samhliða hvassviðrinu er gert ráð fyrir slyddu eða snjókomu með köflum sunnan- og suð austantil á landinu og því gæti færð spillst þar í kvöld og nótt.

Vegir eru að mestu auðir á Suður- og Suðvesturlandi en hálka og óveður er á Sandskeiði og á Hellisheiði. Þá er hálka og skafrenningur á Holtavörðuheiði, Bröttubrekku, Vatnaleið og Fróðárheiði.

Ófært er orðið á Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðaheiði, Vatnsskarði eystra og Fjarðarheiði en hálka eða snjóþekja er á flestum öðrum leiðum á Austurlandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×