Innlent

Eyjamenn í átak gegn einelti

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Hópurinn sem flytur lagið kallar sig Regnbogar og er samsettur af átta ungmennum frá Eyjum.
Hópurinn sem flytur lagið kallar sig Regnbogar og er samsettur af átta ungmennum frá Eyjum. SKJÁSKOT
Yfir 300 manns mættu í Höllina í Vestmannaeyjum í morgun þar sem myndband við lagið Hjálp var frumsýnt. Myndbandið er hluti af átaki gegn einelti sem hópur Eyjamanna stendur að.

Gestir í Höllinni voru nemendur í sjötta til tíunda bekk Grunnskóla Vestmannaeyja, starfsfólk við skólann, fulltrúar fyrirtækja í bænum, fulltrúar frá Vestmannaeyjabæ og fleiri.

Hópurinn sem stendur að átakinu vonast til þess að það verði til þess að vekja fólk til umhugsunar á alvarlegum afleiðingum eineltis. Birkir Þór Högnason er verkefnastjóri átaksins og hann segir að þrátt fyrir að umræðan um einelti beinist mjög oft að grunnskólum finnist einelti víðar í samfélaginu. Einelti á vinnustöðum sé ekki síður alvarlegt sem dæmi.

Myndbandið er hægt að sjá hér fyrir neðan. Lagið Hjálp er samið af Helga Thórshamar við texta eftir Sævar Helga Geirsson. Hópurinn sem flytur lagið kallar sig Regnbogar og er samsettur af átta ungmennum frá Eyjum.

Hægt verður að kaupa lagið á vefsíðunni tonlist.is fyrir 199 krónur og mun sá peningur renna til Regnbogabarna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×