Innlent

Nefnd um afnám verðtryggingar klofin í afstöðu sinni

Heimir Már Pétursson skrifar

Nefnd á vegum forsætisráðherra leggur til að verðtrygging verði afnumin á næstu tveimur árum. Í fyrsta áfanga verði bannað að veita verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára. Vilhjálmur Birgisson skilaði séráliti og telur að ekki sé verið að standa við gefin fyrirheit stjórnvalda um fullt afnám verðtryggingarinnar.

Þegar tillögur um lækkun verðtryggðra skulda heimilanna voru kynntar í nóvember boðuðu formenn stjórnarflokkanna til mikillar kynningar í Hörpu. En nú þegar tillögur um afnám verðtryggingar liggja fyrir voru ráðherrarnir hvergi sjáanlegir og veittu ekki viðtöl.

Í 10 punkta þingsályktunartillögu forsætisráðherra á sumarþingi segir að "Settur verði á fót sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum. Tillögur og tímasett áætlun liggi fyrir í lok árs 2013. " Hópurinn skilaði af sér í dag en telur ekki skynsamlegt að afnema verðtrygginguna með öllu í einu skrefi.

„Við erum að leggja til afnám í tveimur áföngum. Í fyrsta áfanganum erum við með mjög róttækar tillögur sem allar taka gildi 1. janúar 2015. Og í öðrum áfanganum sem á að fara fram árið 2016 fer fram ákveðið endurmat,  sem þarf að fara fram,  og þá er teiknuð upp endanleg áætlun um fullt afnám,“ segir ingibjörg Ingvadóttir formaður nefndarinnar.

Í millitíðinni þurfi m.a. að endurskipkuleggja Íbúðalánasjóðs og lánakerfi hans. Í fyrsta áfanganum um næstu áramót yrði ráðist gegn verðtryggðum jafngreiðslulánum til fjörtíu ára og hámarks lánstími slíkra lána verði til 25 ára.

„Þau hafa verið talin versta birtingarmyndin á verðtryggingunni. Þannig að við leggjum til að þau fari út og svo leggjum við til að lágmarks tíminn í neðri endanum á verðtryggingunni sem er núna fimm ár verði tekinn upp í tíu ár og þannig erum við að ná utan um flest venjuleg neyslulán,“ segir Ingibjörg.

Greiðslubyrði lána mun ekki lækka við þetta og því þurfi að grípa til mótvægisaðgerða, en á móti hækki höfuðstóll lánanna ekki eins og í 40 ára lánunum.

„Þetta eru ekki mjög kostnaðarsamar aðgerðir fyrir ríkissjóð sem við leggjum til. Þannig að við teljum þetta vel gerlegt,“ segir Ingibjörg.

Þá verði settar takmarkanir á veðsettningu íbúðarhúsnæðis með verðtryggðum lánum og hvatar settir í kerfið til töku óverðtryggðra lána.  Árið 2016 verði reynslan metin og áætlun gerði um fullt afnám verðtryggingar. Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness sem sæti átti í nefndinni skilar séráliti og er ekki sáttur.

„Það er einfaldlega vegna þess að það er ekki verið að fara eftir skipunarbréfi forsætisráðherra og því sem verið hefur lofað um að afnema hér verðtryggingu. Það er einfaldlega vegna þess,“ segir Vilhjálmur.

Þannig að þú hefðir viljað afnema strax verðtrygginguna með öllu?

„Já, það liggur alveg fyrir að ég fer eftir skipunarbréfinu og ég legg til í mínu séráliti að verðtrygging á neytendalán verði afnumin frá og með 1. júní 2014,“ segir Vilhjálmur Birgisson.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.