Innlent

Smábátasjómenn í kröggum

Jón Júlíus Karlsson skrifar

Smábátaeigendur áttu fund með sjávarútvegsráðherra í vikunni þar sem rætt var vanda útgerða krókaaflamarksbáta vegna mikillar ýsugengdar á grunnslóðinni allt í kringum landið. Smábátaeigendur vilja aukinn ýsukvóta þar sem að kvótinn er nánast uppurinn þegar átta mánuðir eru eftir á fiskveiðiárinu.

Smábátaeigendur víða um land eru í miklum vandræðum vegna mikillar ýsugendar á grunnslóðinni. Á fyrsta þriðjungi fiskveiðiársins sem hófst í september var búið að veiða um 45% heildarkvótans af ýsu.

Smábátasjómenn reyna nú hvað þeir geta að sneiða hjá ýsu við þorskveiðar en með veikum mætti. Þorvaldur Garðarsson, varaformaður Landsambands smábátaeigenda, segir miklu meira af ýsu við Íslandsstrendur en Hafrannsóknarsstofnun hefur gefið til kynna.

„Ég held að það sé miklu meiri ýsa á grunnslóðinni en Hafró hefur mælt. Þeir mæla þetta fyrst og fremst í togararallinu þar sem er verið að toga á miklu meira dýpi heldur en við erum að veiða á og þar er kannski minna um ýsu. Þetta gefur svolítið skakka mynd af þeirra mælingum,“ segir Þorvaldur.

Smábátaeigendur vilja að ýsukvótinn verði aukinn um fimm þúsund tonn. Fundurinn með sjávarútvegsráðherra gaf smábátaeigendum ekki mikla ástæðu til bjartsýni og fátt sem bendir til þess að kvótinn verði aukinn.

„Ráðherra tók ekki undir þau sjónarmið að það væri hægt að auka kvótann. Það er slæmt því þetta stemmir ákaflega illa við þessar ráðleggingar frá Hafró, þessi mikla ýsugengd,“ segir Þorvaldur.

Eru margir búnir með ýsukvótann?

„Já, eiginlega allir sem eru á þessum veiðum. Menn hanga á síðustu tonnunum og mjög margir löngu búnir með kvótann. Einhverjir hafa leigt kvóta á mun hærra verði en þeir geta selt ýsuna á.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.