Innlent

Bannað að aka yfir þótt grænt ljós logi

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Oft verður mikil truflun og hætta í umferð um ljósastýrð gatnamót þegar umferð stöðvar á miðjum gatnamótunum og teppir för þeirra sem aka þverveginn.
Oft verður mikil truflun og hætta í umferð um ljósastýrð gatnamót þegar umferð stöðvar á miðjum gatnamótunum og teppir för þeirra sem aka þverveginn. vísir/pjetur
Í framhaldi af frétt Stöðvar 2 um hættuna sem stafar af umferð um gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar hefur Samgöngustofa sent frá sér tilkynningu.

Þar eru ökumenn minntir á að við ákveðnar aðstæður sé bannað að aka yfir gatnamót þótt grænt ljós logi.

„Oft verður mikil truflun og hætta í umferð um ljósastýrð gatnamót þegar umferð stöðvar á miðjum gatnamótunum og teppir för þeirra sem aka þverveginn. Alvarlegasta dæmið um þetta má sjá í mikilli umferð um gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Einstaka ökumenn aka út á gatnamótin á grænu ljósi þótt ljóst sé að ekki er hægt að komast yfir þau vegna umferðar sem á undan fer. Þetta verður til þess að þegar grænt ljós kviknar á þverveginn verður allt stopp og einhverskonar frumskógarlögmál virðist gilda. En um þessar aðstæður gilda hinsvegar skýrar reglur í lögum og er rétt að rifja þær upp.

Í lögum segir að ekki má aka inn á vegamót á grænu ljósi ef ökumanni má vera ljóst að hann komist ekki yfir áður en grænt ljóst kviknar fyrir umferð úr þverstæðri átt.

Úrdráttur úr 7 mgr. 25. gr. umferðarlaga

... Á vegamótum, þar sem umferð er stjórnað með umferðarljósum, má ökumaður eigi aka inn á vegamótin á grænu ljósi, ef honum má vera ljóst af aðstæðum í umferðinni, að hann muni eigi komast yfir vegamótin, áður en grænt ljós kviknar fyrir umferð úr þverstæðri átt.

Samgöngustofa hefur ítrekað fengið ábendingar um að töluvert skorti á að ökumenn hafi þetta í lagi. Fjallað var um þá hættu sem skapast í mikilli umferð um gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í fréttum Stöðvar 2. Sjá mátti á myndum, sem fylgdu fréttinni, að hættan sem þarna skapast var fyrst og fremst af völdum þess að ökumenn biðu ekki eftir því að losnaði um þá umferð sem fyrir var áður en þeir lögðu af stað yfir. Það er full ástæða til að minna ökumenn á að miða skal akstur og ákvarðanir við þær aðstæður sem framundan eru og bíða skal á stöðvunarlínu ef ljóst er að ekki er hægt að komast yfir gatnamótin á meðan grænt ljós logar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×