Erlent

Gæti þurft meira en afsökunarbeiðni

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Chris Christie, ríkisstjóri í New Jersey.
Chris Christie, ríkisstjóri í New Jersey. Mynd/AP
Chris Christie, ríkisstjóri í New Jersey, er ekki laus allra mála þótt hann hafi auðmjúkur beðist afsökunar og rekið nokkra nánustu samstarfsmenn sína.

Í dag er von á 907 blaðsíðum af skjölum, sem löggjafarþing ríkisins mun birta og tengjast málinu.

Hann segist ekkert sjálfur hafa vitað af því að samstarfsmenn hans hafi búið til umferðarteppu í þeim tilgangi að tefja fyrir pólitískum andstæðingum hans í miðri kosningabaráttu í september síðastliðnum.

David Wildstein, einn þeirra sem var rekinn, hefur neitað að svara spurningum um málið í yfirheyrslum þingnefndar. Þingnefndin hefur kært hann fyrir skort á samvinnu í málinu.

Wildstein var yfirmaður hafnarstjórnar og það var hann sem skipaði fyrir um að tveimur af þremur akreinum inn á George Washington brúna í Fort Lee skyldi lokað, en afleiðingin varð sú að íbúar í Fort Lee þurftu að glíma við umferðarteppur dögum saman.

Lokun akreinanna kann að varða við lög, og fari svo að samstarfsmenn Christies staðfesti ekki að hann hafi ekkert vitað, þá er hneykslið rétt að byrja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×