Innlent

Hætta í námi útaf kvíða og þunglyndi

Höskuldur Kári Schram skrifar
Rúmlega hundrað framhaldsskólanemendur hættu námi á síðasta ári útaf kvíða, þunglyndi og öðrum andlegum veikindum.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt menntamálaráðuneytisins yfir brotthvarf í framhaldsskólum á síðasta ári. Samantektin náði til 17 framhaldsskóla á landinu en þetta er í fyrsta sinn sem kerfisbundið er kallað eftir ástæðum brotthvarfs frá nemendunum sjálfum.

Þegar frá eru teknir þeir sem fóru í annan skóla kemur í ljós að 885 nemendur hættu námi. Um fjórðungur féll á mætingu eða 251. 112 nemendur fóru út á vinnumarkaðinn og 106, eða um 12 prósent,hættu námi útaf andlegum veikindum, þar á meðal þunglyndi, kvíða og félagsfælni.

Kristrún Birgisdóttir, sérfræðingur hjá menntamálaráðuneytinu segir að nokkur munur sé milli skóla þegar kemur að brotthvarfi nemenda.

„Það er auðvitað nokkur munur á milli skóla. Það þarf að hafa það í huga að þeir eru að taka á móti mjög misjöfnum hópi nemenda. Það eru skólar sem eru að taka móti nemendum sem eiga mjög auðvelt með nám og háar einkunnir þegar þeir koma í byrjun. Svo eru aðrir skólar sem taka við öllum hinum. Krökkum sem þurfa t.d. aðstoð þannig að munurinn liggur í þessu,“ segir Kristrún.

Niðurstöðurnar verða notaðar til að greina áhættuhópa og hjálpa skólum að koma í veg fyrir brotthvarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×