Innlent

Þeir sem hækka verð settir á lista

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA
Alþýðusamband Íslands hefur birt lista yfir fyrirtæki sem hafa hækkað verð í kjölfar kjarasamninga. Á síðunni vertuaverdi.is segir að með því að hækka verð vinni fyrirtækin gegn markmiðum um lága verðbólgu og aukinn kaupmátt.

Þá er á sömu síðu einnig listi yfir fyrirtæki sem hafa lýst því yfir að þau hækki ekki verð.

„Ein helsta forsenda kjarasamninga sem undirritaðir voru þann 21. desember síðastliðinn er að verðbólga verði lág þannig að hóflegar launahækkanir skili sér í auknum kaupmætti,“ segir á síðunni. Svo það gangi eftir þurfi fyrirtæki, ríki og sveitarfélög að axla ábyrgð og halda aftur af verðhækkunum.

„Við hvetjum fyrirtæki og opinbera aðila til að sýna samstöðu og senda inn yfirlýsingu hér á síðunni um að þau muni ekki hækka verð á vörum sínum og þjónustu. Með samstilltu átaki getum við rofið vítahring verðbólgunnar og aukið kaupmátt – það gagnast okkur öllum.“

„Við munum beita öllum þeim þrýstingi sem við getum,“ sagði Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands við Vísi í gær. „Alþýðusambandið lítur málið mjög alvarlegum augum og mun upplýsa almenning með áberandi hætti um þá aðila sem ekki sýna samstöðu og hækka hjá sér gjaldskrár.“

Á listanum eru fyrirtækin: Síminn, Íslandspóstur, World class, Landsbankinn, Eimskip/Herjólfur, Pottagaldrar, Orkuveita Reykavíkur, Lýsi, Nói Síríus og Freyja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×