Innlent

Segja bæjarstjórann fara vísvitandi með rangar tölur

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Fréttablaðið/Vilhelm
Fulltrúar Samfylkingarinnar í Kópavogi harma gífuryrði Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarstjóra Kópavogsbæjar, vegna nýlegrar ákvörðunar bæjarstjórnar að koma með virkum hætti að leigumarkaði í bænum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar.

Í tilkynningunni segir að bæjarstjóri fari vísvitandi rangt með tölur og að hann hafi birst í flestum fjölmiðlum landsins með upphrópanir og þannig talað niður lánshæfismat bæjarins. Slíkt sé mjög alvarlegt hjá bæjarstjóra sem hefur þeim lögbundnu skyldum að gegna að framfylgja ákvörðunum bæjarstjórnar.

„Með nýlegu samþykki bæjarstjórnar er hafin vegferð sem mun ekki kosta bæjarsjóð 3 milljarða eins og bæjarstjóri hefur blásið upp, hér er um að ræða kaup á félagslegu húsnæði 30 – 40 íbúðir sem mun dreifast á lengri tíma ásamt byggingu tveggja fjölbýlishúsa sem verða ekki af þeirri stærðargráðu sem bæjarstjóri nefnir.  Hér er um að ræða viðbrögð við brýnni þörf og neyð á húsnæðismarkaði.

Nú þegar liggja fyrir útreikningar sem sýna að verkefni af þessu tagi mun ekki hafa neikvæð áhrif á rekstur bæjarsjóðs, því leigutekjur munu standa undir rekstrarkostnaði.  

Aðkoma bæjarins að þessu verkefni er tímabundin og hér er um að ræða fjárfestingu sem að sjálfsögðu er eignfærð og bæjarsjóður mun ná markmiði um skuldahlutfall innan lögbundins tímaramma.  Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs hefur með yfirlýsingagleði sinni og gífuryrðum síðastliðinn sólarhring talað niður lánshæfismat bæjarins, einn og óstuddur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×