Innlent

Fara fram á fund vegna MP banka

Elimar Hauksson skrifar
Árni Páll vill að fundað verði sérstaklega um hækkun skattleysismarka bankaskattsins.
Árni Páll vill að fundað verði sérstaklega um hækkun skattleysismarka bankaskattsins.
Fulltrúar Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar vilja fund í efnahags- og viðskiptanefnd um skattleysismörk bankaskatts en mörkin voru hækkuð í 50 milljarða við aðra umræðu málsins á þingi auk þess sem skatturinn var hækkaður í 0,376 prósent.

Vegna þessa munu greiðslur MP banka lækka um 78 prósent, úr 241 milljón niður í 53 milljónir. Þetta gagnrýna fulltrúarnir og kalla eftir rökstuðningi.

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingar og nefndarmaður, hefur sent formanni nefndarinnar, Frosta Sigurjónssyni, bréf þar sem hann fer fram á að fundað sérstaklega um málið í nefndinni.

Bréfið sendi Árni að höfðu samráði við Steingrím J. Sigfússon og Guðmund Steingrímsson en þar kemur fram að skilningur nefndarmanna á breytingartillögu meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar, sem fól í sér gríðarlega hækkun frískuldamarksins, hafi verið sá að frískuldamarkið væri byggt á efnislegri greiningu á þörfum minni fjármálafyrirtækja.

Í bréfinu segir ennfremur að í fjölmiðlaumræðu hafi komið fram að frískuldamarkið virðist sérsniðað að hagsmunum einnar fjármálastofnunar, MP banka, sem virðist vera tengd forystu stjórnarflokkanna fjölþættum fjölskyldu- og vinaböndum. 

Bankinn tengdur ríkisstjórninni

Í Fréttablaðinu á miðvikudaginn var farið yfir tengsl helstu stjórnenda MP banka við ríkisstjórnina. Þar kemur fram að Sigurður Hannesson, einn af framkvæmdastjórum MP banka, sé tengdur Sigmundi Davíð vinaböndum, auk þess að vera hans helsti ráðgjafi. Þá var Sigurður formaður nefndar um skuldaniðurfellingar sem bankaskatturinn á að fjármagna.

Því til viðbótar er Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, mágur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Að lokum er nefndur Benedikt Gíslason en hann er nýráðinn ráðgjafi Bjarna Benediktssonar og fyrrum framkvæmdastjóri bankasviðs MP banka.

Fundað verður á mánudag

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, vísaði því á bug í samtali við fréttastofu á sunnudag að breytingin hefði verið klæðskerasniðin fyrir MP banka en sagði að í raun hefði mátt færa rök fyrir því að MP banki greiddi engan bankaskatt þar sem bankinn hafi ekki verið meðal þeirra sem ollu ríkissjóði tjóni í bankahruninu.

Frosti sagði í samtali við fréttastofu Vísis að fundað yrði í nefndinni á mánudag og að óskað hefði verið eftir því að einhver úr Fjármála- og efnahagsráðuneytinu kæmi fyrir nefnd til að svara fyrirspurnum.

„Það er ekki hefð fyrir því að nefnd fari að breyta tölum sem koma frá ráðuneyti. Við treystum ráðuneytunum því þar eru sérfræðingar sem hugsa fyrir hlutunum. Nefndin er ekki með tæki eða aðstöðu til þess að reikna þetta út,“ sagði Frosti. Hann bætti við að Samband sparisjóða hefði veitt nefndinni umsagnir þar sem fram kom að hækkun skattprósentu yrði mjög þungbær fyrir lítil fjármálafyrirtæki.

Nefndin einblíndi á lagarammann

Frosti segir nefndina hafa eitt miklum tíma í að skoða lagalega umgjörð skattsins þar sem búast mætti við að mikið myndi á hana reyna. Við ákvörðun prósentutölu og skattleysismarka hafi hins vegar verið treyst á tillögur ráðuneytis.

„Við vorum mjög upptekin af því að búið yrði sem tryggilegast um þennan skatt. Meðal annars vegna gagnrýni á lagalegri umgjörð skattsins. Öll okkar athygli var á því að allt væri sem best frágengið. Slitastjórnir gerðu miklar athugasemdir við frumvarpið eins og það var fyrst,“ sagði Frosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×