Innlent

„Hafa mikla þekkingu og reynslu á rannsóknum kynferðisbrota“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Lögreglustjórinn á Akranesi sendir frá sér yfirlýsingu.
Lögreglustjórinn á Akranesi sendir frá sér yfirlýsingu.
Lögreglustjórinn á Akranesi hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann vill leiðrétta ákveðin atriði sem fram komu í Kastljósinu í gærkvöldi.

Í þættinum var rætt við þroskaþjálfara fatlaðrar konu sem sakar stjúpföður sinn og fleiri menn um kynferðislega misnotkun og að afleiðingar misnotkunarinnar birtist á hverjum degi í líðan konunnar.

Hér að neðan má lesa yfirlýsingu lögreglustjórans á Akranesi:

Ríkissaksóknari lét rannsókn sakamálsins niður falla þar sem það þótti ekki líklegt til sakfellingar. Í umfjöllun sjónvarpsþáttarins Kastljóss í gærkveldi komu fram ávirðingar á rannsóknardeild lögreglunnar á Akranesi. Ranglega var tilgreint að lögreglumenn á Akranesi hafi ekki sérþekkingu á rannsóknum kynferðisbrota eða kynferðisbrotum gegn fötluðum.

Hið rétta er að lögreglumenn hjá rannsóknardeildinni á Akranesi hafa mikla þekkingu og reynslu á rannsóknum kynferðisbrota. Í rannsóknardeildinni starfa þrír rannsóknarlögreglumenn með mikla reynslu og þekkingu á rannsóknum kynferðisbrota og tveir þeirra sinntu rannsókn umrædds máls. Yfirmaður rannsóknardeildarinnar hefur rúmlega 30 ára  reynslu af rannsóknum mála.

Lögreglustjórinn á Akranesi getur ekki tjáð sig um rannsóknir einstakra mála. Almennt hefur ríkissaksóknari ekki haft uppi athugasemdir við rannsóknir mála hjá embættinu.

Ummæli viðmælanda Kastljóss um reynslu- og þekkingarleysi rannsóknarlögreglumanna við embættið eiga ekki við rök að styðjast og eru litin alvarlegum augum því þau draga úr öryggistilfinningu borgaranna á Vesturlandi að ástæðulausu. Lögreglustjórinn á Akranesi brýnir fjölmiðla að  fara rétt með í einu og öllu í viðkvæmum málaflokkum sem þessum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×