Innlent

Telja að verið sé að bregðast við neyðarástandi á húsnæðis- og leigumarkaði

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ungir jafnaðarmenn í Kópavogi senda frá sér ályktun.
Ungir jafnaðarmenn í Kópavogi senda frá sér ályktun. visir/pjetur
Ungir jafnaðarmenn í Kópavogi hafa sent frá sér ályktun þar sem stuðningur við nýlega samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs er ítrekaður.

Á þriðjudaginn var tillaga Samfylkingar, Vinstri Grænna og NæstBesta flokks samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs um að kaupa nú þegar 30-40 íbúðir víðsvegar í bænum auk byggingu tveggja fjölbýlishúsa.

Í fréttatilkynningu frá bæjarfulltrúum Samfylkingar segir að vegna neyðarástands sem ríki á húsnæðismarkaði hafi tillagan verið sett fram.

Mæta þurfi vanda þeirra sem þurfa á félagslegum úrræðum að halda í húsnæðismálum. Jafnframt samþykkti bæjarstjórn að hefja nú þegar undirbúning að byggingu tveggja fjölbýlishúsa með leiguíbúðum.

Að tillögunni stóðu bæjarfulltrúar minnihlutans með stuðningi Gunnars I. Birgissonar en bæjarfulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Y-lista greiddu atkvæði gegn henni, að undanskyldum Gunnari Birgissyni.

Hér að neðan má lesa ályktunina:

Rannveig – Ungir jafnaðarmenn í Kópavogi fagna því að bæjarstjórn Kópavogs hafi samþykkt kaup og byggingu íbúða til útleigu og félagslegrar úthlutunar.

Ungir jafnaðarmenn í Kópavogi telja að með þessu sé verið að bregðast við neyðarástandi á húsnæðis- og leigumarkaði. Skortur er á leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og útspil Kópavogsbæjar á að þjóna sem fyrirmynd að útspili annarra sveitafélaga til að vinna bug á vanda leigumarkaðarins. Vísitala leiguverðs hefur hækkað um 30% á síðastliðnum þremur árum á meðan að vísitala neysluverðs hefur ekki hækkað með sambærilegum hætti.

Þá höfnum við því að samþykktin sé ábyrgðarlaus. Samþykktin er ekki útfærð fjárhagslega og hlutverk bæjarstjórnar að finna úrlausn á því. Það er því eintómt lýðskrum að halda því fram að samþykktin sé óútfylltur tékki.

Ennfremur minna Ungir jafnaðarmenn í Kópavogi á að Samfylkingin í Kópavogi lagði upp með uppbyggingu á leiguhúsnæði með þessum hætti í aðdraganda kosninganna 2010. Því er það æskilegt að bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar skuli berjast fyrir þeim tillögum með þessum hætti.

Þá vona Ungir jafnaðarmenn í Kópavogi að húsnæðismálin verði sett á oddinn í kosningabaráttunni í vor, enda um eitt brýnasta hagsmunamál ungs fólks að ræða.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×