Innlent

„Vorum föst inni í vélinni í ellefu klukkutíma“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Farþegar WOW air voru strandaglópar í yfir einn sólahring í Stuttgart.
Farþegar WOW air voru strandaglópar í yfir einn sólahring í Stuttgart. visir/pjetur
Farþegar Wow Air á leið sinni til Salzburg voru strandaglópar í yfir einn sólahring í Stuttgart um helgina.

Samkvæmt upplýsingum frá Svönu Friðriksdóttur, upplýsingarfulltrúa Wow, varð vél frá fyrirtækinu að lenda í Stuttgart vegna þoku.

Farþegar vélarinnar gistu á hóteli í borginni í nótt og fengu að sögn upplýsingafulltrúans matarpening.

„Við erum loksins komin til Salzburg,“ segir Guðmundur Rafn Bjarnason, farþegi vélarinnar, en hann var , ásamt fjölda farþega, strandaglópa í Stuttgart í sólahring.

„Við vorum föst inn í vélinni í ellefu klukkutíma í gær frá níu um morguninn.Til að byrja með hringsólaði vélin yfir Salzburg í töluverðan tíma og ekki var hægt að lenda. Því næst snérum við til Stuttgart og þurftum að sitja inn í vélinni í um þrjá klukkustundir á flugvellinum. Þá var ákveðið að taka af stað á ný og reyna aftur að lenda í Salzburg en það gekk ekki og því þurfti vélin að snúa við á ný.“

„Það sem var sérstakt við þetta allt saman var að flugfélagið talaði aldrei við okkur og við höfum ekki enn heyrt neitt frá þeim. Ég veit í raun ekki af hverju vélin gat ekki lent.“

„Að lokum fengum við að fara á hótel og þar vorum við yfir nótt og í raun lítið yfir því að kvarta.“

„Svo í morgun vorum við kölluð út á völl klukkan hálf níu um morguninn en þá var okkur allt í einu tilkynnt að vélin væri ekki tilbúinn og að um einhverja bilun væri að ræða. Hópnum var þá sagt að koma aftur út á völl klukkan tvö en helmingurinn var þá farinn til Salzburg með öðrum leiðum. Þetta endaði allt saman vel en það sem hægt er að setja út á, er að maður fékk aldrei neinar upplýsingar frá flugfélaginu sjálfu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×