Innlent

Vill að stjórn Mjólkursamsölunnar segi af sér

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Klúður og klaufaskapur segja kúabændur á Suðurlandi um þá ákvörðun Mjólkursamsölunnar að  flytja  inn írskt smjör fyrir jólin.  Geir Ágústsson, kúabóndi í Gerðum í Flóahreppi fer fram á að stjórn Mjólkursamsölunnar segi af sér

Mjólkursamsalan hefur verið mikið í umræðunni á nýju ári eftir innflutning á írsku smjöri fyrir jólin og innflutning á 7,7 tonnum af osti árið 2009 til bræðslugerðar, sem neytendur voru ekki látnir vita af.  Kúabændur hafa lítið blandað sér í þessa umræða en það er alveg ljós á samtali við marga þeirra að þeir eru ekki sáttir við fyrirtækið sitt. Valdimar Guðjónsson er formaður Félags kúabænda á Suðurlandi en hann er bóndi í Gaulverjabæ í Flóahreppi. Hann er ekki hress með írska smjörið og MS.

„Nei, ég er alls ekki sáttur með það, þetta er ferlegt klúður að lenda í þessu, við erum mjög ósáttir við hvað seint var brugðist við, MS sofnaði aðeins á verðunum með að gera spár og slíkt“.

Geir er líka óánægður með MS.

„Þetta eru klaufaskapur, eintóma klaufaskapur í þessum spekingum öllum. Ég er búin að segja þeim þetta fyrir mörgum árum að þeir eiga alltaf að láta okkur vera svolítið umfram. Við verðum að eiga hey umfram það sem við þurfum einn vetur, við þurfum að vera öruggir. Auðvitað á MS að eiga nóga mjólk og mjólkurvörum, vinna úr þeim og hafa nógan lager, þetta er klaufaskapur“.

Geir er á því að einhverjir þurfi að taka pokann sinn hjá MS

„Þeir ættu náttúrulega að hætta í stjórn sem eru þarna að stjórna þessu fyrirtæki,draga sig í hlé og hleypa einhverju öflugra fólki inn“.

Eru kúabændur almennt ósáttir við þetta ?

„Ég held það og ég held að menn séu mjög ósáttir við þennan sauðaragang. Ég var búin að sjá þetta fyrir í sumar. Okkur bauðst að selja kvígur hérna Gerðabændum, það var hringt í okkur og menn vildu kaupa kvígur. Ég sagði við Stefán son minn, við skulum ekki selja kvígurnar, við skulum eiga þær því það verður þörf fyrir mjólkina, sennilega verður borgað betur en nokkur tímann áður. Ég hef ekki hugmynd um hver hvíslaði þessu að mér en ég vissi þetta“, sagði Geir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×